Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   mán 05. september 2022 07:00
Brynjar Ingi Erluson
Selfoss tefldi fram ólöglegum leikmanni gegn Grindavík
Reynir Freyr Sveinsson fékk þrjú gul með Árborg í sumar
Reynir Freyr Sveinsson fékk þrjú gul með Árborg í sumar
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Selfoss vann Grindavík á dögunum, 5-3, í Lengjudeild karla en liðið á nú von á því að tapa þessum þremur stigum þar sem liðið tefldi fram ólöglegum leikmanni í leiknum. Þetta kemur fram í Dr. Football.

Aganefnd KSÍ kemur saman á þriðjudögum og fer þá yfir hvaða leikmenn eru í banni í næstu leikjum en þann 30. ágúst var Reynir Freyr Sveinsson, leikmaður Selfyssinga, á listanum.

Hann fékk eins leiks bann vegna uppsafnaðra gulra spjalda og var því ekki löglegur með liðinu gegn Grindavík þann 3. september.

Þrátt fyrir það var hann í byrjunarliði Selfyssinga áður en honum var skipt af velli á 51. mínútu. Það er því ljóst að liðið tefldi fram ólöglegum leikmanni, en hafi mögulega ekki áttað sig á því.

Reynir var á láni hjá Árborg fyrri hluta tímabilsins. Þar fékk hann þrjú gul spjöld. Hann kom síðan aftur í lið Selfoss og fékk tvö gul spjöld og þar með rautt gegn Þrótti V.

Þannig er mál með vexti að áminningin í þeim leik þurrkast út þar sem hann fékk rautt og var hann því á þremur gulum spjöldum fyrir leikinn gegn Fjölni þann 27. ágúst. Í þeim leik fékk hann gult spjald og var því kominn með fjögur guld spjöld sem gerir það að verkum að hann fær eins leiks bann vegna uppsafnaðra áminninga.

„Það virðist vera sem svo að Selfoss hafi teflt fram ólöglegum leikmanni í þessum leik. Sá heitir Reynir Freyr Sveinsson sem var 30. ágúst af aganefnd KSÍ dæmdur í eins leiks bann. Hann spilaði þennan leik," sagði Jóhann Már Helgason í Dr.Football

„Ég held að þetta hafi mögulega verið þannig að hann var fyrri hluta árs á láni hjá Árborg og tekur með sér gul spjöld. Við erum nokkuð vissir um það hafi verið þannig að Selfyssingar hafi ekki áttað sig á þessu. Höfum ekki fengið þetta 100 prósent staðfest en ég held að Grindavík geti kært þennan leik og fengið 3-0 sigur. Það þarf að flagga því og held að þetta sé komið inn á borð hjá Grindvíkingum."

„Það er einhver sem fær að vita innan Selfoss sem fær upplýsingar um það. Það er einhver sem las þennan póst og skilaði ekki upplýsingunum," bætti Arnar Sveinn Geirsson svo við.

Málið er komið á borð til KSÍ og er það því í farvegi.
Athugasemdir
banner
banner