„Hann minnir mig rosalega á Hannes Halldórsson," sagði Freyr Alexandersson, þjálfari Lyngby, í samtali við Fótbolta.net fyrir nokkru síðan. Hann var þar að tala um markvörð liðsins, hinn 23 ára gamla Mads Kikkenborg.
Freyr þjálfaði Hannes í íslenska landsliðinu á sínum tíma en Hannes er besti landsliðsmarkvörður sem Ísland hefur átt.
Kikkenborg hefur átt mjög gott tímabil með Lyngby en samkvæmt heimildum Tipsbladet þá eru félög í ensku úrvalsdeildinni að fylgjast með honum.
Luton og Sheffield United, sem eru nýliðar í ensku úrvalsdeildinni, eru sögð áhugasöm um danska markvörðinn. Þessi félög hafa sent njósnara á leiki hjá Lyngby til að fylgjast með honum.
Kikkenborg framlengdi í sumar samning sinn við Lyngby til ársins 2026 og því getur félagið örugglega fengið ágætis upphæð fyrir hann ef það ákveður að selja.
Athugasemdir