fös 07. maí 2021 21:21
Brynjar Ingi Erluson
2. deild: Sex marka jafntefli í Njarðvík - Reynir S. vann Hauka
Kenneth Hogg skoraði tvö fyrir Njarðvík
Kenneth Hogg skoraði tvö fyrir Njarðvík
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magnús Þórir skoraði fyrir Reyni
Magnús Þórir skoraði fyrir Reyni
Mynd: Reynir S.
Njarðvík og Þróttur V. gerðu 3-3 jafntefli í fyrstu umferð í 2. deild karla í kvöld og á sama tíma vann Reynir Sandgerði lið Hauka, 2-0.

Njarðvík og Þróttur V. eru þau tvö lið sem sérfræðingar spá að fari upp í Lengjudeildina í sumar en það var stál í stál er liðin mættust á Rafholtsvellinum.

Kenneth Hogg kom Njarðvík yfir á 17. mínútu leiksins eftir hornspyrnu. Marc McAusland var nálægt því að bæta við öðru þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en skalli hans fór í stöng.

Zoran Plazonic gerði annað mark fyrir heimamenn á 63. mínútu en hann lyfti boltanum snyrtilega yfir Rafal Stefán Daníelsson í markinu. Ragnar Þór Gunnarsson minnkaði muninn fyrir Þróttara þegar fimmtán mínútur voru eftir en þeir voru skotnir aftur niður þremur mínútum síðar er Hogg gerði annað mark sitt í leiknum.

Þróttarar neituðu hins vegar að gefast upp. Rubén Lozano Ibancos minnkaði muninn þegar fimm mínútur voru eftir og á 88. mínútu kom jöfnunarmarkið. Sigurður Gísli Snorrason átti aukaspyrnu á Hubert Rafal Kotus sem skallaði boltann í netið.

Lokatölur 3-3 í hörkuleik í Njarðvík. Reynir Sandgerði vann Hauka 2-0 á sama tíma á Ásvöllum.

Aron Freyr Róbertsson átti besta færi fyrri hálfleiksins en hann skaut í stöng af stuttu færi á 12. mínútu og var nálægt því að koma Haukum yfir. Kristófer Páll Viðarsson átti þá skot fyrir utan teig sem fór í slá og yfir markið.

Strahinja Pajic kom Reynismönnum yfir á 71. mínútu með hælnum en markið kom eftir hornspyrnu. Gestirnir fengu þá vítaspyrnu undir lokin er Kristófer var tekinn niður inn í teig. Magnús Þórir Matthíasson steig á punktinn og skoraði.

Lokatölur 2-0. Reynismenn taka með sér þrjú stig frá erfiðum útivelli.

Úrslit og markaskorarar:

Haukar 0 - 2 Reynir S.
0-1 Strahinja Pajic ('71 )
0-2 Magnús Þórir Matthíasson ('88 , víti)

Njarðvík 3 - 3 Þróttur V.
1-0 Kenneth Hogg ('17 )
2-0 Zoran Plazonic ('63 )
2-1 Ragnar Þór Gunnarsson ('75 )
3-1 Kenneth Hogg ('78 )
3-2 Rubén Lozano Ibancos ('85 )
3-3 Hubert Rafal Kotus ('88 )
Athugasemdir
banner
banner
banner