Hvað gerir Guardiola? - Laporta vill Haaland - Man Utd fylgist með Eze - Pogba hafnar rússnesku félagi
   sun 08. september 2024 12:33
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Izmir
Ísland er kryptónít Tyrklands - „Við vitum af sögunni"
Icelandair
Marki fagnað gegn Tyrklandi sumarið 2019.
Marki fagnað gegn Tyrklandi sumarið 2019.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tyrkir hafa aldrei fílað að spila gegn Íslandi.
Tyrkir hafa aldrei fílað að spila gegn Íslandi.
Mynd: EPA
Arnór Guðjohnsen gerði fernu í stærsta sigri Íslands gegn Tyrklandi.
Arnór Guðjohnsen gerði fernu í stærsta sigri Íslands gegn Tyrklandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við vitum af sögunni," sagði Vincenzo Montella, þjálfari Tyrklands, á fréttamannafundi í dag. Annað kvöld mætast Tyrkland og Ísland í Þjóðadeildinni. Er þetta annar leikur Ísland í þessari Þjóðadeild en strákarnir okkar byrjuðu á 2-0 sigri gegn Svartfjallalandi síðasta föstudagskvöld.

Saga Ísland og Tyrklands í landsliðsfótbolta er mjög áhugaverð svo ekki sé meira sagt.

Og eins og Montella segir, þá er hann meðvitaður um söguna.

„Við höfum spilað 13 sinnum gegn þeim og aðeins unnið tvisvar. Við vitum að þetta verður mjög erfiður leikur en við unnum síðast gegn þeim fyrir níu árum."

Tyrkland er 18. fjölmennasta þjóð í heimi með meira en 87 milljónir íbúa. Ísland á sama tíma er 179. fjölmennasta þjóð heims með tæplega 400 þúsund íbúa. Samt sem áður hefur Ísland verið með gott tak á Tyrklandi í fótbolta í gegnum árin.

Svo virðist sem Ísland sé ákveðið kryptónít fyrir Tyrkland í fótbolta, ólukkulið þeirra.

Eins og Montella bendir á, þá hafa þessar þjóðir mæst 13 sinnum og Tyrkland hefur aðeins unnið tvisvar. Liðin mættust fyrst 1980 í einmitt Izmir - þar sem leikurinn á morgun fer fram. Janus Guðlaugsson kom Íslandi yfir og bættu Albert Guðmundsson og Teitur Þórðarson við mörkum í seinni hálfleik. Fatih Terim skoraði mark Tyrklands úr vítaspyrnu en leikurinn endaði með 1-3 sigri Íslands.

Lárus Guðmundsson og Atli Eðvaldsson gerðu svo mörkin í 2-0 sigri Íslands ári seinna. Sá leikur var á Laugardalsvelli.

Liðin gerðu 1-1 jafntefli í Istanbúl 1988 og Ísland vann 2-1 sigur árið eftir þar sem Pétur Pétursson gerði bæði mörkin. Arnór Guðjohnsen gerði þá fernu í 5-1 sigri Íslands á Tyrkjum árið 1991.

Fyrsti sigur Tyrkja á Íslandi var stór en hann kom 1994 í Istanbúl, 5-0 var lokastaðan þar.

Ísland hefur alls unnið átta sigra á Tyrklandi og er því með tæplega 62 prósent sigurhlutfall í leikjum gegn þeim. Frægustu sigrarnir eru líklega þeir sem hafa komið á síðustu árum; líklega er sá frægasti 0-3 sigur í Eskisehir sem kom Íslandi langleiðina á HM 2018. Þá er 2-1 sigur á Laugardalsvelli sumarið 2019 kannski líka mjög frægur en meira um hann síðar.

Leikur Tyrklands og Íslands hefst 18:45 annað kvöld og er auðvitað í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner