
Sóknarmaðurinn efnilegi Árni Steinn Sigursteinsson er búinn að gera samning við Fjölni sem gildir næstu þrjú keppnistímabilin.
Árni Steinn er fæddur 2003 og var markahæsti leikmaður Íslandsmótsins með Íslandsmeistaraliði Fjölnis í 2. flokki - þar sem hann skoraði 18 mörk í 18 leikjum.
Þar að auki kom hann við sögu í níu leikjum með meistaraflokki Fjölnis í Lengjudeildinni og skoraði þar tvö mörk. Sumarið 2021 skoraði hann 6 mörk í 14 leikjum með Vængjum Júpíters í 4. deildinni, á átjánda aldursári.
„Knattspyrnudeild Fjölnis óskar Árna til hamingju með nýjan samning og hlakkar til að fylgjast með honum næstu árin," segir meðal annars í tilkynningu frá Fjölni.
Fjölnir endaði í 4. sæti Lengjudeildarinnar í fyrra og gæti Árni fengið stærra hlutverk í sumar.