PSG leiðir kapphlaupið um Salah - Tuchel á blaði Man Utd - Newcastle líklegt til að reyna aftur við Guehi
banner
   mán 09. september 2024 10:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Izmir
Uppþvottaburstamálið rifjað upp: Íslendingum hótað öllu illu
Icelandair
Ísland fagnar marki gegn Tyrklandi árið 2019.
Ísland fagnar marki gegn Tyrklandi árið 2019.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Uppþvottaburstanum beint að Emre á Keflavíkurflugvelli.
Uppþvottaburstanum beint að Emre á Keflavíkurflugvelli.
Mynd: Getty Images
Erik Hamren fagnar sigrinum á Tyrklandi sumarið 2019.
Erik Hamren fagnar sigrinum á Tyrklandi sumarið 2019.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tyrkland og Ísland eigast við í kvöld.
Tyrkland og Ísland eigast við í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ísland og Tyrkland hafa mæst 13 sinnum á fótboltavellinum. Íslendingar hafa verið með gott tak á Tyrkjum og unnið í átta skipti sem er í raun magnaður árangur miðað við stærð þjóðanna; Íslendingar eru 400 þúsund á meðan Tyrkir eru 87 milljónir.

Síðasti sigur Íslands á Tyrklandi kom árið 2019 á sumarkvöldi í Laugardalnum. Í aðdraganda leiksins myndaðist stormur á samfélagsmiðlum sem íslenskt fótboltaáhugafólk hefur sennilega aldrei upplifað áður.

Þann 9. júní lenti tyrkneska liðið á Keflavíkurflugvelli fyrir leik gegn Íslandi í undankeppni EM. Leikurinn fór svo fram tveimur dögum síðar.

Kvöldið sem tyrkneska liðið lenti hér á landi, þá birtist fyrsta fréttin á Fótbolta.net. Maður hafði þá tekið upp á því að beina uppþvottabursta að Emre Belözoglu, sem var þá fyrirliði tyrkneska landsliðsins, er hann gekk út á Keflavíkurflugvelli. Tyrkneskir fréttamenn reyndu þá að fá viðtal við Emre en þessi maður var svo sannarlega enginn fréttamaður.

Tyrkneska þjóðin sá þetta og snöggreiddist. Tyrkir eru gríðarlega blóðheitir og Íslendingar fengu að kenna á því eftir að uppþvottaburstinn sást í mynd. Tyrkir túlkuðu þetta sem rasisma og voru brjálaðir.

Margir fengu líflátshótanir
Margir Íslendingar fengu líflátshótanir frá reiðum Tyrkjum en líklega enginn meira en Benedikt Grétarsson, fyrrum íþróttafréttamaður á RÚV. Einhvern veginn héldu Tyrkir fyrst að hann hefði verið með burstann og fékk hann fjölmargar hótanir. Benedikt sá sig tilneyddan til að gefa það út að hann væri ekki maðurinn með burstann.

„Fávitinn með burstann er ekki ég," skrifaði Benedikt en Magnús Már Einarsson, þáverandi ritstjóri Fótbolta.net, gaf einnig út yfirlýsingu á samfélagsmiðlum þar sem hann lýsti því yfir að hann myndi aldrei taka viðtal með bursta. „Ég ber gríðarlega virðingu fyrir liðinu ykkar og fyrir Emre sem hefur átt frábæran feril," skrifaði Magnús.

Burstamálið gerði allt vitlaust í Tyrklandi og fólk var mjög reitt út í Íslendinga þar í landi, en svo kom í ljós nokkrum dögum síðar að maðurinn væri frá Belgíu. Þó eiga margir Íslendingar enn ljót hótunarbréf í innhólfum sínum frá reiðum Tyrkjum sem hótuðu öllu illu.

Ekki bara uppþvottaburstinn
Lætin í aðdraganda leiksins sneru ekki einungis að uppþvottaburstanum því Tyrkir voru reiðir með meðferðina sem þeir fengu á Keflavíkurflugvelli. „Fótbolti er magnaður og á að sameina fólk. Ég kom til Íslands 1976, þá var september og það var kalt en fólkið sýndi hlýju. Ég er búinn að vera í fótbolta í 53 ár og ég hef aldrei lent í öðru eins. Starfsmennirnir voru að hrista vegabréfið mitt. Hvers vegna? Það þurfti að skoða allt dótið mitt, símann og allt," sagði Senol Gunes, þá þjálfari Tyrklands, reiður á fréttamannafundi fyrir leikinn.

Stjórnvöld í Tyrklandi sendu kollegum sínum á Íslandi formlega kvörtun eftir að landsliðið þurfti að bíða lengi til að komast í gegnum öryggisleit. Tyrkneska liðið þurfti að fara í gegnum vegabréfaskoðun og öryggisleit þar sem þeir voru að koma frá óvottuðum flugvelli í Konya.

„Við flugum í sex og hálfan tíma og þurftum að bíða í tvo tíma. Ísland nýtur þeirra fríðinda að spila báða leikina í glugganum heima og þetta er óboðlegt. En nú segjum við þessu máli lokið, ég vil einbeita mér að fótboltanum," sagði Gunes sem tók ekki í höndina á Jóni Daða Böðvarssyni - einhverjum indælasta manni sem Ísland hefur að geyma - eftir leikinn.

Frábær sigur
Að fótboltanum, þá vann Ísland leikinn 2-1. Ragnar Sigurðsson skoraði bæði mörk Íslands í fyrri hálfleik. Frábær leikur hjá íslenska liðinu og besti sigur liðsins undir stjórn Erik Hamren. Hann ákvað svo að gera allt vitlaust í íslensku samfélagi með því að draga fram vindil á fréttamannafundi eftir leikinn...

Leikurinn í kvöld hefst 18:45 og verður í beinni textalýsingu á Fótbolta.net. Það hefur verið frekar rólegt um að vera í aðdraganda leiksins í kvöld, allavega ef við miðum við leikinn sem var fyrir fimm árum. Það er eiginlega ótrúlegt að horfa til baka á það í dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner