lau 09. nóvember 2019 15:06
Ívan Guðjón Baldursson
Gary Cahill eftir tapið: Spennandi tímar fyrir Chelsea
Mynd: Getty Images
Gary Cahill var í byrjunarliði Crystal Palace sem tapaði 2-0 fyrir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Staðan var markalaus eftir fyrri hálfleikinn en Tammy Abraham og Christian Pulisic skoruðu í síðari hálfleik. Chelsea verðskuldaði sigurinn enda áttu gestirnir ekki nema þrjár marktilraunir allan leikinn.

Cahill segir að það hafi verið tilfinningaþrungin stund að snúa aftur á Stamford Bridge en hann vann til ýmissa titla á tíma sínum sem leikmaður Chelsea frá 2012 til 2019.

„Það var mjög skrítið að koma aftur hingað. Þetta var svolítið furðuleg og tilfinningaþrungin stund. Ég vil þakka stuðningsmönnum Chelsea fyrir móttökurnar, þær voru frábærar," sagði Cahill að leikslokum.

„Við spiluðum gegn mjög góðu liði og höfðum ekki heppnina með okkur. Þetta eru spennandi tímar fyrir Chelsea og sem stuðningsmanni er gaman að sjá hversu mikið af ungum leikmönnum eru að fá tækifæri.

„Við spiluðum þokkalega vel í dag og markmiðið okkar er að enda í efri hluta deildarinnar."


Chelsea mætti til leiks með yngsta byrjunarlið tímabilsins. Meðalaldurinn var rétt yfir 24 ár.

Cahill verður 34 ára eftir rúman mánuð.
Athugasemdir
banner
banner
banner