Liverpool og Napoli eru komin uppúr E-riðli í Meistaradeildinni eftir góða sigra í kvöld.
Liverpool heimsótti Erling Braut Haaland og félaga til Salzburg í opnum og skemmtilegum leik.
Mohamed Salah klúðraði nokkrum dauðafærum áður en Liverpool komst yfir í seinni hálfleik. Naby Keita skoraði þá með skalla eftir frábæran undirbúning frá Sadio Mane sem tók markmanninn úr leik með glæsilegum spretti og fyrirgjöf.
Salah tvöfaldaði forystuna tæpum tveimur mínútum síðar þegar hann slapp í gegn, hljóp framhjá markverði Salzburg og skoraði með hægri úr ótrúlega þröngu færi.
Liverpool stjórnaði seinni hálfleiknum og tókst heimamönnum ekki að skora. Þetta var þar með fyrsti leikurinn í Meistaradeildinni sem Haaland tekst ekki að skora í.
Salzburg endar í þriðja sæti riðilsins og fer því beint í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar eftir áramót.
Salzburg 0 - 2 Liverpool
0-1 Naby Keita ('57)
0-2 Mohamed Salah ('58)
Arkadiusz Milik skoraði þá þrennu gegn Genk í leik sem gæti verið sá síðasti fyrir Napoli undir stjórn Carlo Ancelotti.
Milik skoraði mörkin þrjú í fyrri hálfleik, það fyrsta eftir pressu á ungan markvörð gestanna, annað eftir fyrirgjöf frá Giovanni Di Lorenzo og það þriðja úr vítaspyrnu.
Dries Mertens gerði fjórða mark Napoli í síðari hálfleik, úr vítaspyrnu, og meira var ekki skorað.
Gestirnir frá Belgíu voru líflegir í leiknum en færanýtingin slæm. Maarten Vandevoordt varði mark Genk og er hann yngsti markvörður í sögu Meistaradeildarinnar.
Napoli 4 - 0 Genk
1-0 Arkadiusz Milik ('3)
2-0 Arkadiusz Milik ('26)
3-0 Arkadiusz Milik ('38, víti)
4-0 Dries Mertens ('75, víti)
Athugasemdir