banner
   mið 12. maí 2021 23:02
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Erlendur fjárfestir með skot á KR fyrir að gefa Kjartani þriggja ára samning
Kjartan er kominn aftur heim.
Kjartan er kominn aftur heim.
Mynd: Getty Images
Það var tilkynnt í morgun að Kjartan Henry Finnbogason væri genginn í raðir KR á nýjan leik.

Kjartan er 34 ára og er uppalinn hjá KR en fór ungur til Celtic. Hann lék í Svíþjóð, Noregi og Skotlandi áður en hann kom aftur heim til KR og lék með liðinu 2010-2014. Á þeim árum varð hann tvívegis Íslandsmeistari með KR og þrisvar bikarmeistari.

Hann gekk svo í raðir Horsens 2014 og hefur leikið í Danmörku og Ungverjalandi þar til hann snýr nú aftur í Vesturbæinn. Kjartan á þrettán landsleiki fyrir Ísland og þrjú mörk.

Kjartan skrifar undir þriggja ára samning við KR en þessi tíðindi vöktu athygli utan úr heimi.

Fjárfestirinn Jordan Gardner, sem er meðal annars eigandi Helsingør í Danmörku og Dundalk á Írlandi, gagnrýndi þá ákvörðun KR að gefa Kjartani þriggja ára samning á þessum aldri.

„Eitt af 1000 dæmum um slæma samninga í evrópskum fótbolta. Kjartan Finnbogason verður 38 ára þegar samningur hans rennur út," skrifaði Gardner á Twitter. Fótboltasérfræðingurinn Hjörvar Hafliðason svaraði honum.

„Kjartan er með KR DNA og mun áhugi á KR aukast með komu hans. Ég skil að þetta hljómar eins og þegar Jermain Defoe fór í Bournemouth en Kjartan kemur með mikið inn í KR. Hann er líka umdeildur, fólk annað hvort elskar hann eða hatar," skrifar Hjörvar.

Kjartan gæti spilað gegn Val í næstu umferð en hægt er að skoða viðtal við Rúnar Kristinsson, þjálfara KR, með því að smella hérna.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner