Enn er óvíst hver tekur við danska landsliðinu til frambúðar en Lars Knudsen heitir hann sá sem nú stýrir liðinu til bráðabirgða.
Hjá dönskum getraunum hefur fólk verið að veðja á það hver tekur við liðinu og þar er óvænt nafn vinsælast.
Hjá dönskum getraunum hefur fólk verið að veðja á það hver tekur við liðinu og þar er óvænt nafn vinsælast.
Danska goðsögnin Michael Laudrup er sá sem danska þjóðin hefur veðjað mest á varðandi það hver muni taka við starfinu. Er þetta líklega merki um að margir vilji fá Laudrup í starfið.
„Við sjáum það í gögnunum að sá sem flestir Danir trúa á sem næsta landsliðsþjálfara Dana er Michael Laudrup," segir í tilkynningu frá Danske spil sem Tipsbladet birtir en þetta kemur á óvart þar sem hann hefur ekki verið hluti af umræðunni um starfið.
„Á sama tíma er ekki vitað hvort hann hefur yfir höfuð áhuga. Þetta minnir á þau skipti sem Michelle Obama hefur verið vinsæl í framboði til forseta Bandaríkjanna án þess að hafa sýnt starfinu nokkurn opinberan áhuga."
Af þeim sem hafa veðjað á það hver verður næsti landsliðsþjálfari Dana, þá hafa 18 prósent sett pening á Laudrup. Morten Wieghorst fær ellefu prósent í öðru sæti.
Laudrup er einn besti fótboltamaður í sögu Dana en hann hefur ekki þjálfað síðan 2018. Hann stýrði síðast Al Rayyan í Katar. Þar áður var hann meðal annars stjóri Swansea í ensku úrvalsdeildinni.
Athugasemdir