Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 13. maí 2021 17:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Leikmenn Liverpool ekki í rútunni - Læti fyrir utan Old Trafford
Mynd: EPA
Það hafa myndast mikil læti fyrir utan Old Trafford, heimavöll Manchester United, fyrir leik Man Utd og Liverpool sem er í kvöld.

Þessi leikur átti að fara fram í byrjun þessa mánaðar en það þurfti að fresta honum. Leikurinn fór ekki fram vegna mótmæla stuðningsmanna Man Utd fyrir utan Old Trafford. Stuðningsmönnunum tókst að ryðja sér leið inn á völlinn og í búningsklefa áður en leikmenn áttu að mæta á völlinn.

Stuðningsmenn Rauðu djöflanna mættu á völlinn til að mótmæla eignarhaldi Glazer fjölskyldunnar á félaginu og tókst að láta fresta stórleiknum.

Á síðustu mínútum hefur stuðningsfólk Man Utd komið saman og sungið: „Við viljum Glazer's burt, við viljum Glazer's burt."

Þau sem styðja United eru búin að fá sig fullsödd af eigendunum og vilja að félagið sé í eigu einhvers sem elski félagið og reyni að gera það betra í því sem tengist knattspyrnu á beinan hátt. Núverandi eigendur eru klókir í viðskiptum og hafa hagnast verulega á eignarhaldi sínu.

Kornið sem fyllti svo alla mæla voru áformin fyrir tveimur vikum sem voru á þá leið að United ætti að fara í svokallaða Ofurdeild ásamt öðrum stórum félögum í Evrópu.

Fyrir viku síðan komust stuðningsmenn inn á völlinn en það er nánast ómögulegt núna þar sem öryggisgæsla í kringum völlinn er miklu meiri núna en hún var þá.

Rútan komst aftur af stað
Við sögðum frá því áðan að rúta merkt Liverpool hefði verið stöðvuð af mótmælendum í Manchester. Lögregla náði að koma rútunni aftur af stað en samkvæmt heimildum Manchester Evening News voru leikmenn Liverpool ekki í rútunni.

Leikmenn Manchester United eru mættir inn í klefa á Old Trafford en ekki er vitað hvar leikmenn Liverpool eru á þessari stundu. Leikurinn á að hefjast 19:15 að íslenskum tíma.


Athugasemdir
banner
banner
banner