Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   mið 15. apríl 2020 13:00
Þorsteinn Haukur Harðarson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Leikur í uppáhaldi: Arsenal 4 - 2 Liverpool
Þorsteinn Haukur Harðarson
Þorsteinn Haukur Harðarson
Thierry Henry skoraði eftirminnilega þrennu.
Thierry Henry skoraði eftirminnilega þrennu.
Mynd: Getty Images
Patrick Vieira í baráttu við Diouf og Michael Owen.
Patrick Vieira í baráttu við Diouf og Michael Owen.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Í fótboltaleysinu sem Covid19 faraldurinn býður okkur uppá hafa ófáir einstaklingar rifjað upp eftirminnilegustu leiki sem þeir hafa séð. Nokkrir slíkir pistlað hafa ratað inn á Fótbolta.net og ég ákvað að hoppa á vagninn og skrifa um minn eftirminnilegasta leik.

Sá leikur sem kemur langfyrst upp í hugann þegar ég hugsa um eftirminnilegasta knattspyrnuleikinn er án nokkurs vafa viðureign Arsenal og Liverpool á Highbury sem fram fór á föstudaginn langa árið 2004.

Nokkrum dögum áður hafði ég fengið ferð á þennan leik í fermingargjöf frá foreldrum mínum og við feðgarnir skelltum okkur saman út á völlinn. Það var vægast sagt mikið undir en skömmu áður hafði Arsenal liðinu verið hent út úr bæði FA bikarnum og Meistaradeildinni svo nú var öll áhersla lögð á að klára enska titilinn, og helst auðvitað að gera það taplaust.

Ferðin byrjaði reyndar ekki nógu vel því þegar við mættum fyrir utan Highbury að morgni leikdags til að hitta manninn sem ætlaði að láta okkur hafa miðana lét viðkomandi hvorki sjá sig né ná í sig símleiðis. Þá voru góð ráð dýr og að endingu náðum við að kaupa tvo miða á uppsprengdu svartamarkaðsverði fyrir utan völlinn. Pabbi tók þarna af mér loforð um að ég myndi aldrei segja mömmu minni hvað miðarnir hafi raunverulega kostað og það sem það er hætta á því að mútta lesi greinina læt ég það ekki fylgja með hversu svívirðilega mikið við þurftum að punga út fyrir miðunum. Það er líka óhætt að segja að sætin sem við fengum hafi ekki verið þau bestu á vellinum, næst aftasta röð í neðri stúku, með efri stúkuna yfir okkur. Ef boltinn fór meira en 2 metra frá jörðu eða fólkið fyrir framan okkur stóð upp vissum við ekkert hvað var í gangi.

Það er líka óhætt að segja að leikurinn sjálfur hafi ekki byrjað neitt sérstaklega vel því eftir einungis nokkrar mínútur náði Liverpool forystunni með marki frá Sami Hyypia. (Tekið skal fram að fram að þessu hafði ég einu sinni áður farið á Arsenal leik, gegn Blackburn árið 2002, sem einnig var tapleikur og þarna var ég viss um að ég væri óhappa fyrir liðið.) Kóngurinn Thierry Henry jafnaði eftir hálftíma leik en áður en flautað var til hálfleiks hafði Michael Owen komið gestunum aftur yfir. Stemmingin í hálfleik var vægast sagt súr.

Þetta var hinsvegar bara lognið á undan storminum því seinni hálfleikurinn var varla farinn af stað þegar Frakkinn hárprúði Robert Pires jafnaði fyrir Arsenal og stuðningsmenn heimaliðsins tóku gleði sína á ný. Einungis andartökum síðar kom svo ótrúlegt mark frá Thierry Henry, þar sem hann fíflaði nánast allt Liverpool liðið upp úr skónum áður en hann sendi boltann framhjá varnarlausum Jerzy Dudek í markinu. Henry hefur síðar sagt í viðtölum að þetta hafi verið eftirminnilegasta mark ferilsins þar sem hann hafi “Heyrt stuðningsmenn byrja að anda aftur,” eftir markið. Það er skemmtileg minning fyrir Henry aðdáanda eins og mig að geta sagst hafa verið á vellinum þegar þessi stórkostlegi leikmaður skoraði sitt eftirminnilegasta mark. Áður en leikurinn var búinn hafði Henry fullkomnað þrennuna, leikurinn vannst 4-2 og stórt skref var tekið í átt að taplausa titlinum. Við feðgar yfirgáfum Highbury völlinn ákaflega glaðir og held ég að ég geti talað fyrir okkur báða þegar ég segi að þetta sé besti “Langi föstudagur” ævinnar.

Það var reyndar spilað andskoti þétt í deildinni á þessum tíma og einungis tveimur dögum síðar, á páskadaginn, tókum við rútu til Newcastle (7 tímar hvora leið) og horfðum á okkar menn gera steindautt 0-0 jafntefli í norðrinu. Leikurinn í sjálfu sér óeftirminnilegur en mikið stuð í rútunni.

Arsenal: Lehmann, Lauren, Campbell, Toure, Cole, Ljungberg (Keown 90), Vieira, Silva, Pires (Edu 72), Bergkamp, Henry.

Liverpool: Dudek, Carragher, Hyypia, Biscan, Riise, Diouf (Murphy 85), Hamann, Gerrard, Kewell, Heskey (Baros 66), Owen.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner