Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   lau 15. maí 2021 23:33
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Sölvi Snær: Ekki óskastaða að vera aðalumræðuefnið út af þessu
Gekk í raðir Breiðabliks á miðvikudagskvöld
Gekk í raðir Breiðabliks á miðvikudagskvöld
Mynd: Breiðablik
Sölvi kom inn á þegar tíu mínútur voru eftir gegn Leikni
Sölvi kom inn á þegar tíu mínútur voru eftir gegn Leikni
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Sölvi Snær fagnar sigri á síðustu leiktíð
Sölvi Snær fagnar sigri á síðustu leiktíð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Páll Sigmundsson
Rúnar Páll Sigmundsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sölvi skoraði níu mörk í 51 leik í deild og bikar með Stjörnunni
Sölvi skoraði níu mörk í 51 leik í deild og bikar með Stjörnunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nánast í hvert einasta skiptið sem Stjarnan hefur borið á góma á undanförnum vikum hefur verið minnst á Sölva Snæ Guðbjargarson. Sölvi var í þeirri stöðu að vera einn efnilegasti leikmaður félagsins og á sama tíma að renna út á samningi og það var staða sem stjórn félagsins var ekki hrifin af.

Sölvi spilaði örfáar mínútur í fyrstu tveimur umferðum deildarinnar og var mikið rætt hvort það væri skipun frá stjórn félagsins til þjálfara á meðan samningsstaðan væri óbreytt.

Eftir fyrstu umferðina sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari félagsins til margra ára, upp störfum og er talið að Sölvamálið, eins og málið var kallað í knattspyrnuheimum, hafi vegið þungt í þeirri ákvörðun.

Fyrir mót hóf Breiðablik viðræður við Sölva þar sem innan við hálft var í að samningur hans við Stjörnunnar rynni út. Þær viðræður kláruðust á miðvikudagskvöld þegar Sölvi gekk í raðir Breiðabliks.

Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, var spurður hvort að Sölvamálinu væri lokið í viðtali eftir leik gegn Víkingi á fimmtudagskvöld. Þorvaldur sagði að málinu væri lokið.

Fréttaritari forvitnaðist hvort Sölvi vildi tjá sig sjálfur eftir að félagaskiptin voru gengin í gegn og var Sölvi til í það. Svör leikmannsins við spurningum fréttaritara má sjá hér að neðan.

Hugmyndir Óskars og Dóra heilla flesta fótboltamenn
Hvernig er að vera kominn í Breiðablik?

„Það er bara mjög gaman, það tóku allir vel á móti mér og mér lýst vel á þennan hóp," sagði Sölvi.

Af hverju ertu kominn í Breiðablik? Hvenær kom það fyrst upp og fannst þér það strax spennandi?

„Þeir sýndu áhuga þegar það mátti ræða við mig. Hugmyndir Óskars og Dóra um fótbolta er líka eitthvað sem heillar mig og líklega flesta fótboltamenn."

Sagt í gríni
Þú sagðir á sínum tíma að það þyrfti mikið að gerast til að þú færir í Breiðablik. Þangað ertu nú samt kominn.

„Þetta var náttúrulega sagt í smá gríni. Það er mikill rígur milli Stjörnunnar og Breiðabliks eins og flestir þekkja."

Ekki óskastaða að vera aðalumræðuefnið út af þessu

Hvað er það sem gerist í vetur, hvernig þróuðust málin og hvernig fannst þér að vera einhvern veginn aðalumræðuefnið þegar tímabilið hjá Stjörnunni var að hefjast?

„Það gerðist svo sem ekkert í vetur, ég þurfti bara nýja áskorun. Það er ekki óskastaða neins fótboltamanns að vera aðalumræðuefnið fyrir eitthvað svona."

Þurfti að hugsa um hvað væri best fyrir sig
Geturu skilið það að stuðningsmenn Stjörnunnar séu ósáttir við að þú farir í Blika?

„Ég get skilið það, en ég veit að það eru líka margir sem skilja mig og mína ákvörðun. Ég þurfti bara að hugsa um hvað væri best fyrir mig."

Sölvi var spurður hvort það hefði komið til greina að vera áfram hjá Stjörnunni. Sölvi svaraði þeirri spurningu játandi. Hann svaraði einnig játandi þegar hann var spurður hvort það hefði komið sér á óvart að hann hafi ekki spilað meira í fyrstu tveimur umferðunum.

Sjokk þegar Rúnar Páll sagði upp
Hvernig sá það við þér að Rúnar Páll sagði af sér? Var það sjokk?

„Mér fannst virkilega leiðinlegt að heyra þær fréttir og það var sjokk. Rúnar er mjög góður þjálfari sem gaf mér tækifærið inn í meistaraflokksboltann og kenndi mér mikið."

Fannst þér umræðan í kjölfarið erfið?

„Ég pældi ekki mikið í þessari umræðu."

Stundum ganga hlutirnir bara ekki upp
Hvernig skiluru við Stjörnuna? Hefðir þú persónulega viljað gera eitthvað öðruvísi í þessu ferli?

„Það var skrýtið að fara frá uppeldisklúbbnum en svona er þessi fótbolti, stundum ganga hlutirnir bara ekki upp og þá er það bara næsta skref sem tekur við og bara halda áfram að spila fótbolta og hafa gaman."

Góðar móttökur
Sölvi lék sinn fyrsta leik með Breiðabliki á fimmtudagskvöld gegn Keflavík.

Hvernig var að spila fyrsta leikinn með Breiðabliki?

„Það var fyrst og fremst bara mjög skemmtilegt. Strákarnir tóku vel á móti mér og þetta var gaman. Ég er mjög spenntur fyrir framhaldinu og ég ætla hjálpa liðinu eins og ég get." sagði Sölvi Snær.

Næsti leikur Breiðabliks er gegn Víkingi á morgun í 4. umferð Pepsi Max-deildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner