Man Utd ætlar að hreinsa til í leikmannahópnum - Vardy orðaður við Valencia
   fös 16. febrúar 2024 14:56
Elvar Geir Magnússon
Guðrún Inga lýsir yfir stuðningi við Vigni
Guðrún Inga Sívertsen.
Guðrún Inga Sívertsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vignir Már Þormóðsson.
Vignir Már Þormóðsson.
Mynd: Aðsend
Guðrún Inga Sívertsen, fyrrum varaformaður KSÍ, lýsir yfir stuðningi við Vigni Má Þormáðsson í komandi formannskosningum. Kosið verður um formann á ársþingi sambandsins þann 24. febrúar.

Guðrún Inga sat í aðalstjórn KSÍ frá 2007 til 2019 og var varaformaður sambandsins frá 2015 til 2019. Hún var varaformaður þegar Guðni Bergsson, sem er í framboði gegn Vigni, var áður formaður. Sá þriðji í formannsframboðinu er Þorvaldur Örlygsson.

Guðrún Inga lýsir yfir stuðningi við Vigni í færslu á Facebook og segir hann frábæran kost í embætti formanns KSÍ.

Skrif GunnIngu á Facebook:

Eftir viku er ársþing KSÍ, en þar mun knattspyrnuhreyfingin kjósa sér nýjan formann. Í framboði til formanns er góður vinur minn, Vignir Þormóðsson. Við Vignir sátum saman í stjórn KSÍ frá 2007 til 2019 eða í tólf ár.

Ég þekki því vel hans störf og veit hvaða sýn hann hefur á íslenska knattspyrnu. Samvinna og samstaða er það sem Vignir hefur ávallt haft að leiðarljósi í störfum sínum. Hann hefur óteljandi kosti sem munu nýtast honum í embætti formanns KSÍ hljóti hann kosningu. Hann er fyrrum formaður knattspyrnudeildar og veit hvaða áskoranir aðildarfélög KSÍ glíma við.

Vignir hefur setið í ýmsum nefndum fyrir knattspyrnusambandið og m.a. í mótnefnd KSÍ síðan 2017, þar sem hann gegndi forystu fyrstu tvö árin, og þá hefur hann víðtæka þekkingu á verkefnum KSÍ, innanlands sem og erlendis. En umfram allt er Vignir dýrmætur sjálfboðaliði úr knattspyrnuhreyfingunni sem hefur unnið fyrir félagið sitt og fótboltann frá unga aldri. Hann hefur yfir þrjátíu ára reynslu af fyrirtækjarekstri, sem að mínu mati er mikill kostur fyrir þau fjölmörgu krefjandi mál sem bíða nýs formanns og stjórnar KSÍ.

Ég vona að aðildarfélögin kjósi reynslu og þekkingu þegar gengið verður til kosninga laugardaginn 24. febrúar. Þangað til held ég áfram hvetja vin minn áfram til dáða því ég veit að hann er frábær kostur í embætti formanns KSÍ. Svo skemmir ekki fyrir hvað hann er skemmtilegur og frábær félagi.

Athugasemdir