Ákveðinn í að fá Haaland til Barcelona - City veitir Liverpool keppni um Guehi - Everton mun ekki hlusta á tilboð í Branthwaite
   þri 16. september 2025 12:00
Kári Snorrason
Tölfræðin HK í hag fyrir umspilið: „Það skemmir ekkert fyrir“
Lengjudeildin
Hermann Hreiðasson, þjálfari HK.
Hermann Hreiðasson, þjálfari HK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK mætir Þrótti í Kórnum á morgun.
HK mætir Þrótti í Kórnum á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
HK mætir Þrótti í fyrri leik liðanna í umspili Lengjudeildarinnar í Kórnum á morgun. Hermann Hreiðarsson, þjálfari HK, segir í samtali við Fótbolti.net liðið vel stefnt og væntir spennandi leiks gegn Þrótti.

„Við komum vel stefndir í leikinn eftir góðan sigur gegn Völsungi á Húsavík og góðan stuðning frá greiningardeildinni (fjörugir stuðningsmenn Völsungs). Við erum búnir að vera sterkir í síðustu leikjum. Okkur líður vel. Við erum spenntir og ætlum að njóta þess í botn að vera í umspilinu,“ segir Hermann.

„Þetta hefur verið markmiðið frá upphafi, vissulega reyndum við að vinna deildina, en eftir að við sáum að það var ekki raunhæfur möguleiki ætluðum við okkur að fara í úrslitakeppnina. Okkur líður vel og við hlökkum til að fara í þennan slag.“

Hermann segir engin alvarleg meiðsli hafa hrjáð HK-liðið og gerir ráð fyrir öllum með gegn Þrótti. Þá verður Brynjar Snær Pálsson leikmaður HK þó í leikbanni.

Í bæði skiptin sem umspilið hefur verið í Lengjudeildinni hefur liðið sem lendir í fjórða sæti komist alla leið og tryggt sér sæti í Bestu-deildinni.

„Það skemmir ekkert fyrir. Við spáum ekkert í því hvaða sæti við enduðum. En við erum í umspilsleikjunum eins og allir aðrir. Þar sitja allir við sama borð. Tveir leikir og allt undir.“

„Ég hvet síðan alla stuðningsmenn HK til að fjölmenna í Kórinn og styðja við bakið á þessu unga og spræka liði. Það væri gaman að sjá sem flesta í stúkunni og taka þennan endasprett með okkur.“

Liðin mætast í Kórnum í fyrri umspilsleik liðanna á morgun. Síðari viðureign liðanna fer fram á sunnudaginn á Avis-vellinum í Laugardal. Sigurvegari einvígisins mætir annaðhvort Keflavík eða Njarðvík í úrslitaleik á Laugardalsvelli.
Athugasemdir
banner