Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   lau 16. október 2021 21:24
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sveindís Jane skoraði í mikilvægum sigri - Andri lék gegn Barcelona
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Lucas Guðjohnsen.
Andri Lucas Guðjohnsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórir Jóhann Helgason.
Þórir Jóhann Helgason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sif lék í sigri Kristianstad.
Sif lék í sigri Kristianstad.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir var á skotskónum fyrir Kristianstad er liðið vann góðan sigur á Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni.

Íslendingaliðið er enn í baráttu um sæti í Meistaradeildinni fyrir næstu leiktíð. Sveindís, sem er tvítug að aldri, gerði annað markið í 1-4 sigri. Hún er núna búin að skora sex mörk í 17 deildarleikjum á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku.

Kristianstad er núna í þriðja sæti. Liðið sem endar þar fer í Meistaradeildina. Eskilstuna á leik til góða, en liðið er með jafnmörg stig og Kristianstad. Það er svo gott sem staðfest að Rosengård og Häcken munu enda sem efstu tvö liðin.

Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad og spila Sveindís Jane og Sif Atladóttir með liðinu. Sif spilaði allan leikinn í dag, rétt eins og Sveindís gerði.

Sóknarmaðurinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir spilaði rúman klukkutíma er Hammarby tapaði á útivelli gegn Vittsjö, 3-1. Hammarby er í sjötta sæti.

Andri Lucas spilaði gegn Barcelona
Hinn 19 ára gamli Andri Lucas Guðjohnsen hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína með íslenska landsliðinu í undanförnum leikjum. Hann skoraði í síðasta leik á móti Liechtenstein og er núna kominn með tvö mörk fyrir A-landsliðið.

Andri Lucas var í dag í byrjunarliðinu hjá varaliði Real Madrid gegn gömlu félögunum í Barcelona. Andri ólst upp hjá Barcelona en hefur verið á mála hjá erkifjendunum í Real Madrid undanfarin ár.

Varalið þessara stórvelda mættust í spænsku C-deildinni í kvöld, og var niðurstaðan markalaust jafntefli. Andri lék 67 mínútur í leiknum fyrir Castilla, varalið Real Madrid.

Birkir og Balotelli spiluðu í tapi
Landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason spilaði með Adana Demirspor í Tyrklandi er liðið tapaði óvænt fyrir Yeni Malatyaspor á heimavelli sínum.

Ítalski vandræðagemsinn Mario Balotelli var einnig í byrjunarliðinu hjá Demispor, sem er í tíunda sæti tyrknesku úrvalsdeildarinnar. Birkir var tekinn út af í hálfleik.

Brynjar ekki í hóp og Þórir út af í hálfleik
Brynjar Ingi Bjarnason hefur fest sig í sessi í íslenska landsliðinu og verið einn af okkar mikilvægustu mönnum upp á síðkastið. Þessi efnilegi varnarmaður hefur hins vegar ekki náð að koma jafn sterkt inn hjá félagsliði sínu, Lecce á Ítalíu.

Brynjar Ingi skipti yfir til Lecce síðasta sumar frá KA. Hann var ekki í hóp í dag í jafntefli gegn Ascoli. Það er spurning hvort meiðsli séu að stríða honum en hann var örlítið tæpur í síðasta landsliðsverkefni. Hann spilaði þó síðasta leikinn gegn Liechtenstein.

Brynjar hefur aðeins spilar 45 mínútur í ítölsku B-deildinni á tímabilinu.

Miðjumaðurinn Þórir Jóhann Helgason hefur spilað töluvert meira fyrir ítalska félagið. Hann hefur einnig komið sterkur inn í A-landsliðið. Hann lék í dag fyrri hálfleikinn fyrir Lecce, sem er í öðru sæti B-deildarinnar. Hann var tekinn af velli í hálfleik.

Hjörtur Hermannsson var ónotaður varamaður hjá Pisa í B-deildinni á Ítalíu er liðið tapaði Crotone. Pisa er þrátt fyrir tapið á toppnum í deildinni.

Sóknarmaðurinn Óttar Magnús Karlsson spilaði í 1-0 sigri Siena Virtus Entella í C-deildinni á Ítalíu. Hann kom inn á sem varamaður í seinni hálfleiknum. Óttar er á láni hjá Siena frá úrvalsdeildarfélaginu Venezia.

Aron Einar lék í sigri
Aron Einar Gunnarsson var ekki í leikmannahópi landsliðsins í síðasta verkefni vegna utanaðkomandi aðstæðna. Hann heldur áfram að spila með félagsliði sínu, Al Arabi í Katar.

Hann var í byrjunarliðinu í dag og spilaði 78 mínútur í 1-3 sigri gegn Shamal í deildarleik. Aron lék í miðverði fyrir Al Arabi, sem er í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig eftir sex leiki.

Bjarki Már Ólafsson starfar hjá Al Arabi við leikgreiningu og fleira.

Á bekknum og utan hóps
Markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson bíður enn eftir fyrsta leik sínum með Leuven í Belgíu. Hann er þar á láni frá enska úrvalsdeildarfélaginu Arsenal. Rúnar var í kvöld á bekknum í 2-2 jafntefli gegn Standard Liege þar sem Leuven kom til baka með tveimur mörkum í uppbótartíma.

Bakvörðurinn Adam Örn Arnarson var ónotaður varamaður hjá Tromsö í 3-0 tapi gegn Molde. Björn Bergmann Sigurðarson var ekki með Molde - sem er á toppnum í Noregi - í leiknum.

Brynjólfur Willumsson var ekki í hóp hjá Kristiansund í markalausu jafntefli gegn Lilleström í norsku úrvalsdeildinni. Hann er meiddur og var ekki með U21 landsliðinu gegn Portúgal fyrr í vikunni. Sá leikur tapaðist naumlega 1-0.

Aron Bjarnason var ekki í hóp hjá Sirius í 2-1 sigri á Varberg í sænsku úrvalsdeildinni. Aron kom til Sirius fyrir tímabilið en hefur ekki enn spilað deildarleik. Meiðsli hafa strítt honum.

Sóknarmaðurinn Hólmbert Aron Friðjónsson var ekki í hóp hjá Holstein Kiel í jafntefli gegn Ingolstadt í þýsku B-deildinni. Hólmbert hefur komið við sögu í tveimur deildarleikjum á tímabilinu.

Þá var Svava Rós Guðmundsdóttir ekki með Bordeaux í 5-2 tapi gegn Stade de Reims í frönsku úrvalsdeildinni. Svava Rós er í landsliðshópi Íslands fyrir komandi landsleiki gegn Tékklandi og Kýpur.

Barbára Sól Gísladóttir lék ekki með Bröndby í 5-2 sigri gegn AaB í dönsku úrvalsdeildinni. Barbára fór til Bröndby frá Selfossi fyrr á tímablinu.

Willum Þór Willumsson var ekki í hóp hjá BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi. Liðið tapaði fyrir Slavia Mozyr.

Kolbeinn Birgir Finnsson var ekki með varaliði Borussia Dortmund í 4-2 tapi gegn varaliði Braunschweig í C-deildinni í Þýskalandi; hann var ekki í hóp.

Varnarmaðurinn Anna Björk Kristjánsdóttir var ekki í hóp hjá Inter í 1-0 sigri á Roma í úrvalsdeild kvenna á Ítalíu.

Róbert Orri Þorkelsson var ekki í hóp hjá Montreal CF í 2-2 jafntefli gegn Philadelphia Union í MLS-deildinni í Norður-Ameríku. Hann hefur verið að glíma við meiðsli.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner