mán 17. maí 2021 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Sjáðu atvikið: Annað skiptið sem Unnar er óheppinn með ákvörðun dómara
Fyrsta markið í myndum
Fyrsta markið í myndum
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Leiknir vann í gær Fylki 3-0 í nágrannaslag í Pepsi Max-deildinni. Leikið var á Domusnova vellinum í Breiðholti.

Fyrsta markið hefur mikið verið í umræðunni. Unnar Steinn Ingvarsson fór niður eftir viðskipti við Emil Berger á miðjum vallarhelmingi Fylkis. Þá voru Árbæingar ósáttir með að víti var dæmt á liðið undir lok leiks.

„BÆNG. SÆVAR ATLI MAGNÚSSON!!! Dagur Austmann fær boltann við miðjuna og lyftir boltanum innfyrir á Sævar Atla sem tekur hann í fyrsta og boltinn fer undir hendurnar á Aroni Snæ í marki Fylkis. Spurning með aukaspyrnu í aðdragandanum þegar virtist vera brotið á Unnari Stein," skrifaði Anton Freyr Jónsson í textalýsingu frá leiknum.

„Að mínu mati gefur dómarinn þeim tvö mörk og hann á bara mjög slakan dag og Leiknir er ekki að skapa mikið af færum og það er alltaf erfitt þegar þú lendir í svona leik.Leiknir fær fyrsta markið gefins og mér fannst þetta léleg frammistaða hjá dómara leiksins," sagði Atli Sveinn Þórarinsson, þjálfari Fylkis, í viðtali eftir leik.

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis, sá atvikið í öðru ljósi. „Hann ætlar að reyna stíga hann út en stígur bara fyrir hann og hlaupa einhvern veginn saman. Maður sér svo oft dæmt á þetta sem mér finnst algjör steypa og mér fannst þetta bara hrikalega vel dæmt hjá honum að láta þetta halda áfram," sagði Siggi. Viðtölin má sjá hér neðst í fréttinni.

Atvikið var til umræðu í Pepsi Max stúkunni eftir leikinn. Reynir Leósson og Baldur Sigurðsson voru sérfræðingar og Guðmundur Benediktsson stýrði þættinum.

„Mér finnst þetta vera brot. Mér sýnist dómarinn vera beita hagnaði og hefði sennileg dæmt á Unnar ef hann hefði dæmt brot. Kannski, að mínu mati, í annað skiptið sem Unnar er óheppinn með ákvarðanatöku dómara," sagði Baldur og vísar í rauða spjaldið sem Unnar fékk í fyrstu umferð.

„Það hefði alveg verið hægt að dæma brot á þetta. Þetta var samt svona 50:50 bolti, ég vissi ekki í hvora áttina hann myndi þá flauta. Unnar stígur aðeins inn í hann og fær hann í sig, það hefði alveg verið hægt að dæma brot á Leiknismanninn," sagði Reynir.

„Mér finnst munurinn á þessu og mörgum svipuðum atvikum vera sá að Unnar er með líkamann fyrir, hann er ekki að teygja löppina út til að hindra boltann. Leiknismaðurinn keyrir hann niður," sagði Baldur. Atvikið var skoðað aftur seinna í þættinum.

„Maður sér að Atli er orðinn pirraður á þessu, rauða spjaldið í fyrsta leiknum, markið á 90. mínútu á móti HK, vítið gegn KR og svo þetta," sagði Baldur.

„Það versta sem þú gerir er að fara ræða þetta mikið innan hópsins. Auðvitað á hann að segja þetta í viðtölum eftir leikinn en ekki ræða það inn í hópnum að hlutirnir eru að ganga á móti þeim, það spíralast oft upp í eitthvað vesen," sagði Reynir.

„Ég er svo lélegur dómari," sagði Reynir. „Ég veit allt um það. Unnar veit að hann er að koma, hann ætlar skýla því að Leiknismaðurinn komist í boltann," sagði Gummi.

„Unnar er ekki alveg að búast við sendingunni, svo kemur hún og svo sér hann Leiknismanninn. Mér finnst boltinn vera svo nálægt honum, mér finnst vera mikill munur á því og að teygja sig í boltann, þá er oft dæmt brot á þann sem reynir að skýla. Þarna rennur boltinn 10cm frá honum og hann er búinn að ná stöðu. Mín skoðun að Unnar eigi að fá aukaspyrnu," sagði Baldur.

„Níu af hverjum tíu tilvikum held ég að dómarinn dæmi aukaspyrnu á svona," sagði Reynir. Atvikið má sjá hér að neðan. Fylkir vildi líka fá rangstöðu í markinu en erfitt er að sjá það.


Atli Sveinn pirraður: Léleg frammistaða hjá dómara leiksins
Siggi Höskulds: Oft dæmt á svona sem mér finnst algjör steypa
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner