HK og Keflavík mætast í úrslitum um sæti í Bestu deild karla en þetta varð ljóst eftir úrslit dagsins.
HK-ingar unnu Þróttara í annað sinn í undanúrslitum umspilsins, 3-2, og samanlagt 7-5 í einvíginu á AVIS-vellinum í Laugardal.
Seinni leikurinn byrjaði frábærlega fyrir HK sem fékk vítaspyrnu á 3. mínútu.
Dagur Orri Garðarsson kom sér í dauðafæri og var að munda skotfótinn er Eiríkur Þorsteinsson Blöndal braut á honum. Dagur fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi.
Þróttarar hótuðu marki HK-inga eftir hornspyrnu á 21. mínútu. Kári Kristjánsson tók hornið sem Aron Snær Ingason skallaði aftur út á Kára. Hann kom með annan bolta fyrir á Kolbein Nóa Guðbergsson, en skot hans small í stönginni.
Heimamenn jöfnuðu leikinn undir lok fyrri hálfleiks er Aron Snær hljóp á langan bolta Baldurs Hannesar Stefánssonar og kláraði Aron snyrtilega framhjá Ólafi Erni Ásgeirssyni í markinu.
Staðan í hálfleik 1-1 og þurftu Þróttarar aðeins eitt mark til að jafna einvígið.
Lítið var um hættuleg færi í byrjun síðari hálfleiks en þegar tæpur hálftími var til leiksloka juku HK-ingar forystu sína í rimmunni er Haukur Leifur Eiríksson axlaði hornspyrnu Ívars Arnar Jónssonar í netið.
Fyrri leikurinn var hin mesta skemmtun og var þessi ekki síðri, en tuttugu mínútum fyrir leikslok skoruðu bæði lið á stuttum tíma.
Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson skoraði með laglegu utanfótarskoti við endalínu stuttu eftir að hafa komið inn á sem varamaður, en aftur svöruðu HK-ingar.
Önnur hættuleg hornspyrna Ívars fór yfir pakkann og á Tuma Þorvarsson sem skoraði af stuttu færi og HK-ingar enn og aftur að bæta við forystuna.
HK-ingar sigldu sigrinum heim og eru komnir í úrslit um sæti í Bestu deildina eftir eina svakalegustu rimmu sem sést hefur í Lengjudeildarumspilinu.
Keflavík afgreiddi Njarðvík í seinni hálfleik
Keflvíkingar unnu 3-0 sigur á Njarðvík í grannaslag á JBÓ-vellinum í Njarðvík og samanlagðan 4-2 sigur í einvíginu.
Það voru Keflvíkingar sem byrjuðu leikinn betur og virtust ætla að taka völd á þessum leik en NJarðvíkingar voru ekki lengi að vinna sig aftur inn í hann.
Valdimar Jóhannsson fékk dauðafæri á 22. mínútu er hann komst einn í gegn á móti Sindra Kristni Ólafssyni, en skot hans yfir markið.
Á síðustu mínútum fyrri hálfleiks fékk Stefan Alexander Ljubicic tvö álitleg færi til þess að koma Keflvíkingum yfir. Í fyrra færinu náði Thomas Boakye að stíga hann út rétt áður en hann náði að athafna sig, en Aron Snær Friðriksson varði seinna.
Engin mörk í fyrri hálfleik en Keflvíkingar áttu eftir að snúa taflinu við í einvíginu í þeim síðari með tveimur mörkum á rúmum fimmtán mínútum.
Strax í byrjun síðari hálfleiks áttu Keflvíkingar langt innkast inn á Marin Mudrazija sem tók hann á lofti og upp í samskeytin, algerlega óverjandi fyrir Aron í markinu.
Keflvíkingar sóttu stíft að marki Njarðvíkur næstu mínúturnar og í raun ótrúlegt að liðið hafi ekki skorað að minnsta kosti tvö mörk, en annað markið kom fyrir rest.
Óbein aukaspyrna var dæmd inn í teig Njarðvíkur eftir að boltinn var sendur til baka og var það Stefan Alexander sem skoraði annað markið og Keflavík komið í forystu í einvíginu.
Liðin skiptust á færum næstu tuttugu mínúturnar og í restina voru NJarðvíkingar farnir að fjölga mönnum í fremstu víglínu. Það kom í bakið á þeim undir lok leiks er Keflavík fór fram í skyndisókn, boltanum komið fyrir á Stefan sem gulltryggði Keflavík áfram í úrslit.
Það verða því HK og Keflavík sem eigast við í hreinum úrslitaleik um sæti í Bestu deildina, en leikurinn er spilaður á Laugardalsvelli á laugardag.
Svekkjandi fyrir Njarðvík sem tók stóran séns undir lok síðasta leiks með því að láta besta leikmann liðsins, Oumar Diouck, fá viljandi rautt spjald svo hann myndi ná úrslitaleiknum.
Hann er þeirra markahæsti leikmaður á tímabilinu og úrslitavaldur í leikjum, en í staðinn kveðja Njarðvíkingar umspilið og munu leika áfram í Lengjudeildinni á næsta ári.
Þróttur R. 2 - 3 HK (5-7, samanlagt)
0-1 Dagur Orri Garðarsson ('4 , víti)
1-1 Aron Snær Ingason ('41 )
1-2 Haukur Leifur Eiríksson ('64 )
2-2 Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson ('71 )
2-3 Tumi Þorvarsson ('74 )
Lestu um leikinn
Njarðvík 0 - 3 Keflavík (2-4, samanlagt)
0-1 Marin Mudrazija ('48 )
0-2 Stefan Alexander Ljubicic ('62 )
0-3 Stefan Alexander Ljubicic ('93 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir