Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mið 21. október 2020 20:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bendir á að Vopnfirðingar hafi ekki forskot á Reykjavíkurliðin
Úr leik hjá Einherja í sumar.
Úr leik hjá Einherja í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
KSÍ tók í gær ákvörðun um að reyna að klára þá leiki sem eftir eru í Íslandsmótinu í næsta mánuði.

Mótið hefur dregist á langinn vegna kórónuveirunnar en til að mynda er stefnt á að klára Pepsi Max-deildina 30. nóvember.

Mörg félög í neðri deildum verða eflaust fáliðuð í síðustu leikjum tímabilsins þar sem margir erlendir leikmenn eru farnir til síns heima. Eitt þeirra félaga er Einherji á Vopnafirði sem leikur í 3. deild karla.

Einherji getur æft venjulega eins og önnur félög utan höfuðborgarsvæðisins, en Bjartur Aðalbjörnsson, fyrirliði liðsins, segir á Twitter að liðið sé ekki með neitt forskot á lið í Reykjavík. Strangari reglur eru á höfuðborgarsvæðinu og verða lið þar að æfa með sérstökum skilyrðum.

„Ef Reykjavíkurliðin halda að við Vopnfirðingar höfum forskot á þau, þá er ekki svo. Utan við mig eru 1-2 leikmenn á staðnum. Völlurinn er freðinn. Þjálfarinn fór heim til að nýta flugferðina. Útlendingarnir farnir heim. Lykilmaður er á leið í aðgerð. Hér er að koma vetur," skrifar Bjartur á Twitter en hann segir jafnframt að Einherjamenn muni mæta baráttuglaðir í síðustu leikina ef þeir fari fram eins og stefnt er á.

„Þetta eru bara staðreyndir sem nauðsynlegt er að halda á lofti. Að því sögðu get ég greint frá því að við mætum að sjálfsögðu baráttuglaðir til leiks þegar/ef mótið fer af stað að nýju."

Ash Civil, þjálfari Einherja, flaug frá Íslandi á sunnudag en hann ætlar að koma aftur í síðustu leikina.

Einherji er í níunda sæti 3. deildar, fjórum stigum frá fallsæti. Liðið á eftir heimaleik gegn Tindastóli og útileik gegn KV.

Nokkur önnur félög eru í sömu stöðu og Einherji varðandi það að sterka pósta muni vanta í lokaleikjunum.

Sjá einnig:
„Munum aldrei fá sanngjarna niðurstöðu í mótið"


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner