Smith Rowe og Nelson á förum - Chelsea náði samkomulagi við Aston Villa - Úrvalsdeildarfélög keppast um Abraham - Arsenal vill Nico Williams -...
   mið 22. maí 2024 10:47
Elvar Geir Magnússon
Heimild: BBC 
Þetta eru lykilleikmennirnir í ósigruðu liði Leverkusen
Florian Wirtz hefur gríðarlega hæfileika.
Florian Wirtz hefur gríðarlega hæfileika.
Mynd: Getty Images
Xhaka lætur hjólin snúast.
Xhaka lætur hjólin snúast.
Mynd: EPA
Victor Boniface er feikilega öflugur.
Victor Boniface er feikilega öflugur.
Mynd: EPA
Bayer Leverkusen hefur unnið þýsku deildina og komist í úrslit Evrópudeildarinnar og þýska bikarsins án þess að tapa leik. Undir stjórn Xabi Alonso hefur liðið farið í gegnum 51 leik án ósigurs og í kvöld leikur það gegn Atalanta í úrslitum Evrópudeildarinnar.

En hverjir eru helstu lykilleikmennirnir í gegnum þetta stórkostlega tímabil Leverkusen?

Florian Wirtz - Gæti unnið Ballon d'Or í framtíðinni
Gimsteinninn í Leverkusen liðinu. Þessi 21 árs leikmaður er með 18 mörk og 19 stoðsendingar í 47 leikjum á þessu tímabili. Hann varð fyrir slæmum meiðslum fyrir tveimur árum en þýski landsliðsmaðurinn er nú einn eftirsóttasti ungi leikmaður fótboltans. Real Madrid fylgist grannt með honum.

Wirtz spilar oftast fyrir aftan fremsta mann, er mikið í boltanum og vill keyra á varnir andstæðingana. Hann er sannur hæfileikamaður og gæti í framtíðinni unnið Ballon d'Or. Alonso líkti honum einu sinni við Lionel Messi.

Granit Xhaka - Hjartað á miðsvæðinu
Þessi fyrrum miðjumaður Arsenal er leiðtogi í liðinu og er alltaf tilbúinn að fá boltann. Alonso hefur unnið vel með Xhaka sem er með sitt hlutverk á hreinu og algjört akkeri á miðsvæðinu.

Victor Boniface - Með allt í vopnabúrinu
Þessi 23 ára framherji kom frá Union Saint-Gilloise síðasta sumar og hefur verið valinn nýliði ársins í þýsku Bundesligunni. Nígeríski landsliðsmaðurinn er með 21 mark og 10 stoðsendingar í 33 leikjum fyrir Leverkusen. Alonso lýsti honum sem sóknarmanni sem hefur allt. Chelsea og Arsenal eru sögð vilja fá hann.

Jeremie Frimpong - Blómstrað í vængbakverðinum
3-4-2-1 kerfi Alonso myndi ekki virka nema hafa vængbakverði sem geta hlaupið upp og niður. þessi 23 ára leikmaður var í Manchester City akademíunni en spilaði ekkert fyrir aðalliðið. Hann fór til Celtic og svo til Leverkusen þar sem hann hefur þróast út í einn besta vængbakvörð Evrópu.

Alex Grimaldo - Þvílíkur happafengur
Spánverjinn Alex Grimaldo er í hinni vængbakvarðarstöðunni, hægra megin. Spánverjinn var í La Masia akademíu Barcelona og lék fyrir Benfica áður en hann gekk í raðir Leverkusen á frjálsri sölu. Þessi 28 ára leikmaður hefur átt geggjað tímabil og tölfræðin sannar það. Skorað tólf mörk og átt nítján stoðsendingar í gegnum 49 leiki. Fróðlegt verður að sjá hvort hann fái hlutverk í spænska landsliðinu á EM.

Nathan Tella - Þýtur upp eins og eldflaug
Tella var ungur hjá Arsenal, fór svo til Southampton og lék sinn fyrsta aðalliðsleik 2020. Hann fór til Burnley á lán 2022 og fór á kostum undir stjórn Vincent Kompany í B-deildinni. Burnley reyndi að halda honum en Leverkusen krækti í hann. Ári eftir að hafa spilað í Championship er Tella orðinn þýskur meistari og gæti bráðlega orðið Evrópumeistari og bikarmeistari. Ótrúlegur og hraður uppgangur hjá þessum 24 ára nígeríska landsliðsmanni.
Athugasemdir
banner
banner
banner