Danmörk 2 - 0 Þýskaland
1-0 Amalie Vangsgaard ('23)
2-0 Amalie Vangsgaard ('64)
Danmörk var að leggja sterkt lið Þýskalands að velli í fyrstu umferð íslenska riðilsins í Þjóðadeildinni.
Amalie Vagnsgaard, fyrrum markavél Linköping sem er samningsbundin PSG í dag, skoraði bæði mörk Dana í sigrinum.
Hún skoraði eftir undirbúning frá Pernille Harder í fyrri hálfleik og tvöfaldaði svo forystuna sjálf eftir leikhlé.
Það ríkti þokkalegt jafnræði með liðunum en færanýting heimakvenna í Danmörku var betri.
Ísland spilar við Wales í fyrstu umferðinni og er það gríðarlega mikilvægur slagur. Botnlið riðilsins fellur niður um deild en þriðja sætið fær umspilsleik við lið sem endar í öðru sæti í riðli í B-deildinni.
Toppsætið kemst í úrslitakeppnina og keppir um þátttökurétt á næstu Ólympíuleikum. Þá er mjög mikilvægt að falla ekki niður um deild vegna þess að það mun hafa mikil áhrif á uppröðun riðla í undankeppninni fyrir EM 2025.