Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 25. október 2021 07:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Komin með dagsetningu frá Wolfsburg - „Tilbúnari í næsta skref"
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveindís segist ánægð með það að hafa tekið fyrst skrefið til Svíþjóðar.
Sveindís segist ánægð með það að hafa tekið fyrst skrefið til Svíþjóðar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveindís Jane Jónsdóttir, ein efnilegasta fótboltakona landsins, er við það að klára sitt fyrsta tímabil í atvinnumennsku.

Eftir að hafa slegið algjörlega í gegn með Breiðabliki í efstu deild á Íslandi á síðasta ári, þá samdi hún við þýska stórliðið Wolfsburg. Hún var fyrst lánuð til Kristianstad í Svíþjóð þar sem hún spilar undir handleiðslu Elísabetar Gunnarsdóttur, eins besta þjálfara Íslands.

Þegar hún var spurð á fréttamannafundi hvort hún væri sátt með sitt fyrsta tímabil í atvinnumennsku, þá sagði hún: „Já og nei. Ég missti af 2-3 leikjum. Það hefði verið gott að missa ekki af neinu."

„Það hefur ekki gengið eitthvað rosalega vel að skora, en við erum á fínum stað í deildinni eins og er. Við erum í Meistaradeildarsæti. Þetta lítur ágætlega út."

Sveindís hefur skorað sex deildarmörk fyrir Kristianstad, sem er í þriðja sæti sænsku deildarinnar, en hún segir að planið sé að spila í Þýskalandi á næsta ári. Hún er komin með dagsetningu varðandi það hvenær hún á að fara yfir til Wolfsburg. „Planið er að fara aftur til Wolfsburg í desember. Ég er á leiðinni þangað eftir tímabilið eins og planið er núna."

Hvort er skemmtilegra?
Sveindís getur bæði spilað sem kantmaður og sem fremst á vellinum. Hún hefur aðallega spilað á kanti hjá landsliðinu, og hefur hún gert bæði í Svíþjóð. Hvort líkar henni betur?

„Þegar liðið er mikið að sækja, þá er gaman að vera út á kanti. En líka frammi. Ég get eiginlega ekki valið. Mér er alveg sama," sagði Sveindís og hló.

Ísland - Svíþjóð - Þýskaland
Sveindís, sem er tvítug, var að lokum spurð hvernig það hefði verið að taka skrefið frá Íslandi til Svíþjóð og hvernig henni litist á að fara í framhaldinu til Þýskalands.

„Ég er mjög ánægð með þetta. Ég held að það hafi verið mikilvægt fyrir mig að taka þetta skref til Svíþjóðar fyrst og spila svona mikið. Það er ekki víst að ég hefði spilað svona mikið ef ég hefði farið beint til Þýskalands. Ég er tilbúnari í næsta skref," sagði Sveindís.
Athugasemdir
banner
banner
banner