sun 26. mars 2023 23:18
Brynjar Ingi Erluson
Nagelsmann er efstur á blaði hjá Tottenham
Mynd: Getty Images
Julian Nagelsmann er efstur á blaði til að taka við stjórastöðunni hjá Tottenham Hotspur. Þetta kemur fram í Telegraph.

Tottenham mun ráða inn nýjan stjóra eftir að tímabilinu lýkur á Englandi en félagið tilkynnti í kvöld að búið væri að rifta við Antonio Conte.

Cristian Stellini mun stýra liðinu út tímabilið og verður Ryan Mason honum til aðstoðar en Tottenham er þegar byrjað að vinna í því að finna eftirmann Conte.

Samkvæmt Telegraph er Nagelsmann efstur á blaði, en hann er á lausu eftir að Bayern München lét hann fara í landsleikjatörninni.

Þýskir miðlar hafa greint frá því að félög þyrftu að greiða Bayern München bætur ef hann yrði ráðinn á þessari leiktíð og því ætlar Tottenham að bíða með viðræður þangað til eftir tímabilið.

Umboðsmannaskrifstofan sem sér um mál Nagelsmann hefur ekki viljað tjá sig um orðróma sem tengjast Tottenham.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner