Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 26. nóvember 2019 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ingibjörg: Hef lært ótrúlega mikið í erfiðustu deild í heimi
Ingibjörg gefur 'fimmu' í landsleik í haust.
Ingibjörg gefur 'fimmu' í landsleik í haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Blaðamannafundur á EM 2017.
Blaðamannafundur á EM 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á landsliðsæfingu í júní árið 2017.
Á landsliðsæfingu í júní árið 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Breiðablik árið 2014.
Í leik með Breiðablik árið 2014.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik árið 2017.
Úr leik árið 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingibjörg í leik með Breiðablik árið 2016.
Ingibjörg í leik með Breiðablik árið 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsæfing haustið 2017.
Landsliðsæfing haustið 2017.
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
Fyrir leik á EM.
Fyrir leik á EM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik á EM 2017.
Úr leik á EM 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Æft í ágúst með landsliðinu.
Æft í ágúst með landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingibjörg Sigurðardóttir gæti verið á leið í burtu frá Djurgarden í Svíþjóð. Þar hefur hún leikið undanfarin tvö tímabil, hún kom til félagsins frá Breiðablik eftir tímabilið 2017.

Ingibjörg er 22 ára varnarmaður sem er uppalin hjá Grindavík. Hún varð yngsti leikmaður deildarinnar þegar hún kom við sögu í Pepsi-deildar leik með Grindavík árið 2011, þá var hún ekki orðin fjórtán ára gömul.

Hjá Breiðablik varð Ingibjörg Íslandsmeistari árið 2015 og bikarmeistari árið 2016. Árið 2017 lék Ingibjörg sinn fyrsta A-landsleik og hefur alls leikið 27 slíka.

Fótbolti.net hafði samband við Ingibjörgu og fór yfir ferilinn með henni. Fyrstu spurningarnar tengdust landsliðinu, hún kom inn í hópinn fyrir EM 2017 og byrjar fyrstu tvo leikina á EM.

Hent út í djúpu laugina - Sturluð tilfinning
Ingibjörg lék sína fyrstu tvo landsleiki árið 2017. Það voru síðustu tveir leikirnir fyrir EM það ár Ingibjörg var spurð út í mótið.

„Fyrst og fremst mikil reynsla sem ég fékk á þessu móti þar sem mér var aðeins hent í djúpu laugina. Ég komst mjög fljótlega vel inn í hópinn og var fljót að aðlagast þegar meiðsli komu upp í minni stöðu og það gekk bara vel, sagði Ingibjörg við Fótbolta.net

„Það hjálpaði að hafa Freysa (Frey Alexandersson, þáverandi landsliðsþjálfara) sem hafði mikla trú á mér og hann hjálpaði mér mikið."

„Ég hafði ætlað mér svo lengi að vera í þessum hóp á þessu stórmóti þannig ég var búin að undirbúa mig vel þó svo að ég hafi komið seint inn í hópinn en auðvitað var ég ekki 100% á því að vera í lokahópnum - það var mjög stór viðurkenning fyrir mig."

„Að byrja fyrsta keppnisleikinn á móti Frökkum á troðfullum velli var sturluð tilfinning, maður var hátt uppi andlega í þeim leik en síðan var manni kippt hratt niður á jörðina þegar þær komust yfir í lokin. Þessi leikur var mjög lærdómsríkur eins og allt mótið en þessi leikur stendur klárlega upp úr."

„Allt þetta mót er einhvern veginn í móðu fyrir mér núna þegar ég lít til baka, svo mikið gerðist á þessum stutta tíma. Andinn í hópnum eftir mótið var auðvitað ekki mjög góður en samt sem áður bara spark í rassinn og við vorum staðráðnar í því að koma sterkari til baka."

„Eftir mótið voru stuðningsmenn og fólk með miklar efasemdir um okkur sem er eðlilegt en við svöruðum því vel með sigri á Þýskalandi sem sýndi að við eigum heima í fremstu röð."


Vildi bíða eftir rétta tilboðinu
Ingibjörg hélt til æfinga hjá norska félaginu Valerenga haustið 2017. Hún var spurð að því hvort stefnan hefði alltaf verið að fara út eftir tímabilið 2017 á Íslandi. Olli tíminn hjá Valerenga því að Ingibjörg ákvað að halda í atvinnumennsku á þeim tímapunkti?

„Langtímaplanið mitt var alltaf að spila á EM og fara svo út en svo breytist hugarfarið eftir EM. Eftir að hafa fengið nokkur tilboð og ég sá að ég var ekki tilbúin að stökkva bara á fyrsta tilboðið heldur bíða eftir því rétta."

„Ég var að æfa við frábærar aðstæður hjá Blikum þar sem ég fékk allt sem ég þurfti til að þróast áfram sem leikmaður þannig ég var ekkert að drífa mig."

„Ég fór og æfði með Gunný (Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur) og þessi lífsstíll sem hún var að lifa þarna úti heillaði mjög - að þurfa bara að einbeita sér að fótboltanum og leggja alla sína orku í það var draumur minn. Þjálfararnir í Valerenga sýndu mér mikinn áhuga og það kveikti klárlega í löngun minni að skoða mig um."


Stærsti sigurinn á ferlinum - Lærði meira af EM
Næst í tímaröðinni er útisigurinn gegn Þýskalandi í undankeppninni fyrir HM árið 2017. Ísland vann frábæran sigur gegn frábæru þýsku liði. Er þetta stærsti sigurinn á ferlinum? Hvernig var sú stund samanborin við að spila á EM?

„Góð spurning. Ég held að þó að þetta sé minn stærsti sigur þá lærði ég mikið meira af EM og það mótaði mig mikið að þeim leikmanni sem ég er."

„Eins erfitt og EM var þá var það mjög dýrmætur tími þar sem ég fékk mikla reynslu og lærði mikið um sjálfa mig og hvernig persóna ég er og vil vera innan sem utan vallar."


Vildi fara í sterkari deild en sú ítalska var á þeim tíma
Ingibjörg heimsótti Fiorentina á Ítalíu í kjölfar heimsóknarinnar til Valeranga. Hvernig leist henni á Fiorentina? Á þeim tíma var einnig eitthvað skrifað um sænska félagið Kristianstad, um hvað snerist það? Voru fleiri félög sem höfðu áhuga á þeim tímapunkti?

„Fiorentina var í sjálfu sér flottur klúbbur og hafði upp á margt að bjóða en ekki það sem ég var að leita að á þeim tímapunkti sem tilboðið kom upp á. Ég vildi fara í sterkari deild og ítalska deildin var ekki mjög sterk en hún er að styrkjast með hverju árinu og það er mikil og flott þróun þar."

„Kristianstad var eitthvað sem kom upp á meðan ég var samningsbundin Blikum og þeir voru ekki tilbúnir til þess að sleppa mér á þeim tímapunkti og ég virti það og heyrði ekki meira af því."

„Mér barst ekkert tilboð frá Kristianstad eftir tímabilið þegar ég var að skoða mín mál þannig það var aldrei val á milli Djurgarden og Kristianstad. Ég hefði alltaf skoðað Kristianstad á þeim tímapunkti ef það hefðu komið upp enda frábær klúbbur með flottar aðstæður og þjálfarateymi. Það voru önnur lið í nokkrum mismunandi deildum en Svíþjóð heillaði mest á þeim tímapunkti."


Meira svigrúm til bætinga og meiri samkeppni hjá Djurgarden
Ingibjörg gekk í raðir Djurgarden undir lok árs 2017. Hvað var það sem heillaði við Djurgarden og hvernig var félagið frábrugðið Breiðablik. Ræddi Ingibjörg við Hallberu Guðný Gísladóttur eða Guðbjörgu Gunnarsdóttur sem eru og höfðu verið á mála hjá félaginu áður en hún skrifaði undir?

„Já ég talaði við Hallberu og Guðbjörgu og einnig við þjálfarann. Þjálfarinn hafði mikla trú á mér og vildi hjálpa mér að ná þeim markmiðum sem ég hafði sett mér persónulega. Mér leyst vel á hans hugmyndafræði um fótbolta og þá leikmenn sem voru að koma til liðs við félagið á sama tíma og ég."

„Upp á aðstöðuna að gera þá er Breiðablik á betri stað en Djurgarden en það sem hjálpaði var að ég var að fara inn í sterkara lið þar sem æfingarnar eru töluvert erfiðari, meiri samkeppni og meira svigrúm til þess að bæta sig."

„Það skipti mig miklu máli að ég fengi nóg af aukaæfingum og alla þá hjálp til þess að gera mig að betri leikmanni. Einnig er sænska deildin gríðarlega jöfn og sterk deild þar sem allir leikir eru 50/50 og það heillaði."


Tók langan tíma að jafna sig á því að komast ekki á HM
Næst í tímaröðinni, áður en tíminn hjá Djurgarden er gerður upp, eru vonbrigðin haustið 2018. Ísland fékk tvo leiki á heimavelli til að tryggja sér á HM í Frakklandi sem haldið var í sumar. Lið Þýskalands og Tékklands heimsóttu Laugardalsvöllinn það haustið og liðið náði í einungis eitt stig úr þeim leikjum sem dugði ekki til að komast á HM. Ingibjörg var beðin um að rifja upp tilfinningarnar eftir þessa leiki. Tók það langan tíma að jafna sig á vonbrigðunum að komast ekki á HM?

„Já það voru mikil vonbrigði þar sem við töldum okkur eiga heima á þessu stórmóti en það er alltaf erfitt fyrir Ísland að komast á HM þar sem Evrópuþjóðirnar eru mjög sterkar."

„Það tók langan tíma að jafna sig á þessum vonbrigðum og það var í rauninni ekki fyrr en HM var búið sem maður náði að jafna sig á þessu. Eins skemmtilegt og HM var í sumar þá var mjög erfitt að horfa á leikina heima uppí sófa."

„Þetta mótlæti kveikti klárlega í okkur og við viljum koma okkur á næsta stórmót, við vildum bæta okkur sem lið. Á sama tíma áttuðum við okkur líka á því að við þurfum að leggja meira á okkur því að aðrar þjóðir eru að stíga upp."


Tölvupósturinn til Freysa
Í hlaðvarpsþættinum, Heimavöllurinn sem tekinn var upp undir lok árs 2018 var rætt ítarlega við Ingibjörgu. Þar kom fram að Ingibjörg hefði haft samband við Frey Alexandersson og spurt hann í tölvupósti hvað það væri sem hún þyrfti að bæta til að komast í landsliðshópinn, þetta var fyrir EM2017.

Fréttaritari sóttist eftir að fá að vita hverju Freyr hefði svarið og Ingibjörg svaraði þeirri spurningu. Hún var líka spurð hvort hún hefði haft áhyggjur að þetta gæti eyðilagt möguleikana fyrir henni?

„Freyr kom nú sem betur fer ekki með of langan lista en þetta voru nokkrir góðir punktar sem ég hef reynt að tileinka mér og geri ennþá í dag."

„Hann nefndi hluti sem miðvörður þarf að vera góður í, fyrstu skrefin, fótavinna og sprettir og hann sagði mér að fylgjast með öðrum hafsentum og læra af þeim bestu í heiminum."

„Nei ég hafði aldrei neinar áhyggjur, ég vildi vita hvað honum fyndist ég þurfa að bæta í mínum leik til að eiga möguleika. Í versta falli kæmi hann með langan lista yfir alla hlutina sem ég væri ekki nógu góð í og myndi ekki velja mig, sem hefði líka bara verið fínt fyrir mig."


Lærdómsríkur tími hjá Djurgarden
Nú er komið að því að gera upp tímann hjá Djurgarden en nú í vetur kláraði Ingibjörg sitt annað tímabil með félaginu. Liðið endaði í 8. sæti á fyrra tímabilinu og í 10. sæti á þessari leiktíð, liðið rétt hélt sér uppi.

Hvernig gerir Ingibjörg tímabilin upp? Hvaða stöður hefur Ingibjörg leyst hjá félaginu?

„Bæði þessi tímabil eru ákveðin vonbrigði fyrir klúbbinn. Fyrir mig persónulega þá var tímabilið í fyrra bara flott tímabil fyrir mig þar sem ég náði að vera frekar stabíl, spilaði allar mínúturnar og var í stóru hlutverki."

„Ég lærði margt bæði innan og utan vallar sem hefur hjálpað mér mikið. Tímabilið í ár var bara alls ekki nógu gott, okkur var spáð ofarlega en hlutirnir bara smullu ekki saman."

„Ósætti var í hópnum við þjálfara og hann endar á því að vera rekinn. Frá byrjun janúar þegar við hófum undirbúningstímabilið þá sá maður að þetta var ekki alveg að fara að ganga og ekki allir voru á sömu blaðsíðu með ákveðna hluti sem þurfa bara að vera í lagi í svona sterkri deild."

„Þegar nýr þjálfari kemur inn frekar seint í sumar þá sér maður enn betur hvað það var mikið af hlutum sem voru hreinlega bara ekki í lagi bæði hjá leikmönnum og starfinu í kringum liðið og því er erfitt að breyta á nokkrum vikum. Þetta var ströggl fram á síðasta leik en þetta hafðist."

„Þrátt fyrir erfiðleikana hjá félaginu er ég samt mjög þakklát fyrir tímann minn hjá Djurgarden og allt það sem hefur komið upp á þar."

„Ég hef upplifað nokkra hápunkta með félaginu. Einn þeirra var að vinna nágrannaslag við Hammarby á Stockholm Stadion fyrir framan fullt af fólki. Þá var gaman fyrir mig að vera valin besti leikmaður tímabilsins hjá félaginu í fyrra. Ef ég á að nefna einhvern lágpunkt þá myndi ég segja að sumarið í sumar hafi verið einn stór lágpunktur."

„Í sumar spilaði ég sem miðvörður, hægri bakvörður og síðan vængbakvörður en lang mest sem hafsent. Mér var þó hent upp sem framherja þegar við þurftum að skora mark í lok leiks sem er alltaf skemmtilegt."


Hvað tekur Ingibjörg út úr þessum tveimur tímabilum?

„Ég hef lært ótrúlega mikið á þessum tveimur árum í deildinni, sem ég tel vera erfiðasta deild í heimi. Það eru allir leikir jafnir og erfiðir og botnliðið getur unnið toppliðið."

„Þarna þurfti maður að mæta í hvern leik eins og þetta sé mikilvægasti leikurinn í lífi manns annars var bara valtað yfir mann."


Langar að spila á Englandi eða í Þýskalandi
Að lokum í þessari samantekt er komið að framtíðinni. Hvernig lítur hún við Ingibjörgu? Hvernig er staða hennar hjá Djurgarden, verður hún áfram? Ef ekki, hvað langar Ingibjörgu að prófa næst á ferlinum og hvar langar henni að spila?

„Eins og staðan er núna þá er ég ekki samningsbundin Djurgarden en ég held öllum möguleikum opnum. Það er erfitt að fara frá Djurgarden eftir þetta vonbrigðartímabil því mér finnst liðið eiga meira inni og geta verið í toppbaráttu í sænsku deildinni."

„Það eru líka miklar breytingar að gerast í félaginu sem mér lýst vel á. Ég þarf hins vegar að hugsa hvað er best fyrir mig á þessum tímapunkti og hvað er að fara að hjálpa mér að taka næsta skref í ferlinum, hvort það sé með Djurgarden eða í einhverju öðru liði verður bara að koma í ljós."

„Það eru nokkrar deildir sem heilla, England er að gera flotta hluti með kvennafótboltann en svo er Þýskaland líka eitthvað sem ég hef áhuga á að prufa,"
sagði Ingibjörg að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner