Harry Maguire, varnarmaður Manchester United, verður ekki með liðinu gegn Nottingham Forest í 5. umferð enska bikarsins á morgun.
Miðvörðurinn er að glíma við smávægileg meiðsli og þarf því Erik ten Hag að gera breytingar á vörn sinni.
Maguire skoraði mark United í 2-1 tapinu gegn Fulham um helgina, en var heppinn að vera inn á vellinum til að skora það mark eftir að hann slapp við rautt spjald í fyrri hálfleiknum fyrir ljótt brot.
Hann verður ekki með á morgun og þá er óvíst hvort Raphael Varane geti verið með. Hann er einnig að glíma við smávægileg meiðsli, eins og fyrirliðinn Bruno Fernandes.
Jonny Evans, Victor Lindelöf og Willy Kambwala eru allir heilir og gætu spilað á morgun. Lindelöf spilaði vinstri bakvörð á móti Fulham og líklegt að hann spili sömu stöðu á morgun.
Góðu fréttirnar fyrir United eru þær að brasilíski miðjumaðurinn Casemiro er klár í slaginn.
Athugasemdir