Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 28. nóvember 2018 16:33
Fótbolti.net
Ingó hætti í fótbolta eftir að liðsfélagi hagræddi úrslitum
Úr leik hjá Ægi.  Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Úr leik hjá Ægi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Ingó í leik með Selfyssingum fyrir nokkrum árum.
Ingó í leik með Selfyssingum fyrir nokkrum árum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ægir féll úr 2. deildinni 2016.  Hér er mynd frá því sumri.  Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Ægir féll úr 2. deildinni 2016. Hér er mynd frá því sumri. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Ingólfur Þórarinsson ákvað að leggja skóna á hilluna snemma sumars 2016 en hann hætti þá að spila með liði Ægis í 2. deildinni. Ingólfur ákvað að hætta í fótbolta eftir að liðsfélagi hans var sakaður um veðmálasvindl. Ingólfur telur líklegt að úrslitum hafi verið hagrætt hjá Ægi í upphafi tímabils 2016.

„Fyrir einn leikinn tilkynntu tveir Serbar í liðinu þjálfaranum og stjórninni að einn leikmaður í liðinu hefði boðið þeim peninga fyrir að breyta úrslitum í leiknum og svindla," sagði Ingólfur í Hlaðvarpsþættinum Miðjunni á Fótbolta.net í dag.

Ægir gerði starfslokasamning við leikmanninn
Fótbolti.net greindi frá málinu árið 2016 en leikmaðurinn sem um ræðir er erlendur varnarmaður sem fékk tvær vítaspyrnur á sig í fyrri hálfleik í leik gegn Gróttu. Eftir þann leik gerði Ægir starfslokasamning við hann. Formaður Ægis vildi ekki tjá sig um málið við Fótbolta.net árið 2016 og Ingó vildi sjá meira gert úr málinu á sínum tíma.

„Mér fannst þetta mál ekki sigla hátt. Eins og samfélagið er þá ertu saklaus þangað til sekt er sönnuð. Þetta mál var erfitt út af því að þetta var orð á móti orði. Það er hrikalegt ef þetta er satt eins og allt bendir til. Að leikmaður í liðinu hafi verið að breyta úrslitum og gefa vítaspyrnur og alls konar hluti þegar tuttugu leikmenn eru búnir að æfa allan veturinn. Þá er ekki hægt að standa í þessu. Svona veðmálasvindl eru algjör þvæla," sagði Ingó í Miðjunni.

„Það er mikilvægt að það séu gerð fordæmi úr svona. Menn fari í ævilangt keppnisbann eða séu flaggaðir í kerfinu til að menn geti ekki mætt á Ólafsvík á næsta ári og gefið næstu vítaspyrnu. Ég tel að það þurfi að tala um þetta opinskátt og hann fái að svara fyrir sig ef hann þorir því. Ef hann þorir því ekki þá finnst mér augljóst að hann hefur eitthvað að fela."

„Þessi leikmaður sem var sakaður um þetta hætti hjá liðinu. Ég veit ekki hvernig þetta var tæklað en mér fannst verst að þetta hafi ekki verið gert meira opinbert og fylgt betur eftir. Bæði hjá KSÍ og klúbbnum. Til að koma í veg fyrir að leikmenn geri þetta ekki aftur og sérstaklega þessi leikmaður ef þetta var satt. Þetta er ömurlegt í alla staði ef menn eru að æfa eins og bjánar og svo er einn í liðinu sem ákveður hvernig leikurinn fer. Það er súrrealískt hvað menn eru búnir að eyða miklum tíma í að æfa og svo er einn maður að stilla þessu upp."


Lagði saman tvo og tvo þegar ásakanirnar komu
Ægir féll á endanum úr 2. deildinni árið 2016 en Ingólfur segist sjálfur hafa trúað ásökunum.

„Ég trúi þessu persónulega 100%. Þetta lá eiginlega í augum uppi. Þetta var góður leikmaður en það komu augnablik í leikjum þar sem maður skildi ekki hvað hann var að gera. Maður hélt kannski að hann væri klaufskur en þegar þessar ásakanir komu fram þá lagði maður saman tvo og tvo og þá var þetta frekar augljóst. Að sama skapi finnst mér vont ef það er verið að saka hann um eitthvað sem er rétt. Þess vegna er mikilvægt fyrir alla aðila að þetta sé leitt til lykta. Var hann að þessu eða ekki? Það þurfa að vera yfirheyrslur eða eitthvað kerfi. Maður sé hvað þetta er stórt vandamál í heiminum og það þarf að hafa kerfi á þessu. "

Smelltu hér til að hlusta á Gumma og Ingó í Miðjunni. Talið um þetta atvik byrjar eftir 63.20 mínútur.
Athugasemdir
banner
banner
banner