Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 29. nóvember 2021 23:53
Brynjar Ingi Erluson
Forseti PSG um afrek Messi: Fyrsta sinn sem við vinnum gullknöttinn
Lionel Messi með verðlaunin í kvöld
Lionel Messi með verðlaunin í kvöld
Mynd: EPA
Nasser Al-Khelaifi, forseti Paris Saint-Germain í Frakklandi, ræddi við fjölmiðla eftir að Lionel Messi vann gullknöttinn í París í kvöld en hann segir þetta fyrsta gullknöttinn í sögu PSG.

Messi fékk gullknöttinn fyrir frábæra frammistöðu með Barcelona og argentínska landsliðinu. Hann skoraði 38 mörk og lagði upp 14 í 47 leikjum með Barcelona og vann spænska bikarinn en vann svo fyrsta titilinn með landsliði Argentínu í Suður-Ameríkubikarnum.

Þar var hann valinn besti leikmaður mótsins og var markahæstur en hann fær þó verðlaunin sem leikmaður Paris Saint-Germain og fannst því Al-Khelaifi eðlilegt að félagið myndi eigna sér titilinn.

„Við erum öll mjög stolt. Þetta er sjöundi gullknötturinn sem Messi vinnur og í fyrsta sinn fyrir okkur. Vonandi verður þetta ekki sá síðasti því við höfum aðra frábæra leikmenn. Mbappe vill vinna þessi verðlaun," sagði Al-Khelaifi.

Sumum gæti reyndar fundist það sanngjarnt því George Weah var samningsbundinn AC Milan þegar hann vann Ballon d'Or og var kjörinn besti leikmaður heims af FIFA árið 1995. Verðlaunin fékk hann fyrir frábæran árangur með Paris Saint-Germain þar sem hann vann franska deildabikarinn og var markahæsti leikmaður Meistaradeildar Evrópu er PSG komst í undanúrslit keppninnar.

Valið hefur að vísu verið gagnrýnt en aðeins leikmenn úr Evrópu gátu unnið verðlaunin fram að 1995, er reglunum var breytt. Weah var því fyrsti leikmaðurinn utan Evrópu til að vinna og hafa verið færð rök fyrir því að Jari Litmanen hafi átt verðlaunin skilið en hann hjálpaði Ajax að vinna Meistaradeildina og hollensku deildina.

Alan Shearer skoraði 34 mörk í ensku úrvalsdeildinni er Blackburn Rovers vann deildina í þriðja sinn en tókst að vísu ekki að skora fyrir enska landsliðið í þeim átta leikjum sem hann spilaði það árið.
Athugasemdir
banner
banner
banner