mið 30. nóvember 2022 11:46
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Vísir 
„Hann vildi tala við mig augliti til auglitis en síðan hef ég ekkert heyrt"
Virðingarleysi af hálfu Breiðabliks
Adam Örn
Adam Örn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Kristjánsson er yfirmaður fótboltamála hjá Breiðabliki
Ólafur Kristjánsson er yfirmaður fótboltamála hjá Breiðabliki
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Adam lék á láni með Leikni seinni hluta tímabilsins.
Adam lék á láni með Leikni seinni hluta tímabilsins.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
„Ég fékk SMS frá Ólafi Kristjánssyni, yfirmanni knattspyrnumála hjá Breiðabliki, eftir viðtalið hjá Fótbolti.net. Hann vildi tala við mig augliti til auglitis en síðan hef ég ekkert heyrt í honum. Það var fyrir mánuði síðan," sagði Adam Örn Arnarson við Vísi í dag.

Adam vísar þar í viðtal sem hann fór í hér hjá Fótbolti.net eftir að tímabilinu lauk.

Sjá einnig:
Adam Örn: Væri fínt að fá já eða nei frá Breiðabliki (4. nóv)

„Ég verð bara að viðurkenna það að ég veit ekki neitt. Eins og þetta lítur út núna þá lítur það ekki út fyrir það, bara miðað við það sem maður sér í fréttum. Ég er ekki búinn að heyra neitt sjálfur frá þeim. Það væri fínt að fá já eða nei, það er ekki komið ennþá. En miðað við það sem maður hefur lesið í fréttum hjá ykkur þá lítur það ekki þannig út (að ég verði áfram í Breiðabliki)," sagði Adam þá í viðtalinu við Fótbolta.net.

En aftur að viðtalinu við Vísi:

„Persónulega finnst mér þetta frekar mikil vonbrigði. Þetta er uppeldisfélagið og mér líður eins og þetta sé létt virðingarleysi. Svo er pabbi í stjórn stuðningsmannaklúbbi Breiðabliks. Við höfum alltaf gert allt fyrir Breiðablik og þetta er mjög skrítin framkoma, finnst mér.“

Fá meiri umfjöllun og meiri athygli
Adam kemur þá einnig inn á að hann fór snemma út í atvinnumennsku, áður en hann skapaði sér nafn heima á Íslandi.

„Ég hef oft hugsað út í það hvort maður hafi fengið smá að gjalda fyrir að skapa sér ekki nafn heima. Það virkar þannig á mann að þeir sem skapa sér nafn heima fá meiri umfjöllun og meiri athygli.“

„Ég er bara 27 ára gamall og hungraður í að sýna öllum hér heima hvað ég get. Vil sýna að ég sé enn sami leikmaður og spilaði alla þessa leiki úti. Að maður sé einn af toppbakvörðunum hérna heima,"
sagði Adam.

Hann er hægri bakvörður sem fór til Nec Nijmegen árið 2013 og spilaði í kjölfarið með Nordsjælland, Álasundi, Gornik Zabrze og Tromsö áður en hann samdi við Breiðablik fyrir tímabilið 2022 eftir að hafa misst af stærstum hluta tímabilsins 2021 vegna meiðsla.

Í dag er hann heill heilsu en samningslaus og segir við Vísi að hann hafi verið í viðræðum við eitt lið í Bestu deildinni.

„Ég er búinn að vera í viðræðum við eitt lið í Bestu en ég get alveg viðurkennt það að það kom mér persónulega á óvart að það sé ekki meira á borðinu. Miðað við það sem maður hefur verið að gera undanfarin ár, ég veit ekki hvort menn séu hræddir við þetta síðasta eitt og hálfa ár þegar ég var meiddur," sagði Adam.

Viðtalið frá 4. nóvember má sjá hér að neðan.
Adam Örn: Væri fínt að fá já eða nei frá Breiðabliki
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner