Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 01. maí 2008 09:00
Magnús Már Einarsson
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 10.sæti
Mynd: Pedromyndir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Alfons Finnsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í tíunda sætinu í þessari spá var Víkingur Ólafsvík sem fékk 77 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Víking.


10.sæti: Víkingur Ó.
Búningar: Gul treyja, gular buxur, gulir sokkar.
Heimasíða: http://www.vikingurol.tk

Ólafsvíska stálið er þekkt fyrir skipulagðan varnarleik og má fastlega búast við því að það sama verði uppi á teningnum á komandi sumri. Liðinu er spáð tíunda sætinu í ár en í því sæti hafnaði liðið í fyrra. Að þessu sinni falla hinsvegar tvö lið úr deildinni og því er spáð að Víkingar muni dansa rétt fyrir ofan fallsætin.

Erlendir leikmenn hafa spilað stórt hlutverk hjá Víkingum síðustu ár og engin breyting verður á því í ár. Liðið hefur misst nokkra útlendinga en hefur fengið tvo nýja. Miðjumaðurinn Miroslav Pilipovic hefur leikið með liðinu í Lengjubikarnum og þá kom Senid Kulas til landsins frá Bosníu á dögunum en hann getur leikið í miðri vörninni eða á miðju. Það skiptir miklu fyrir Víkinga að þessir menn finni sig. Ekki kæmi á óvart þó fleiri erlendir leikmenn ættu eftir að líta við í Ólafsvík.

Lánsmennirnir sem voru með liðinu í fyrra eru farnir annað og Helgi Reynir Guðmundsson hefur ekkert verið með. Nokkrir athyglisverðir leikmenn hafa komið og má meðal annars nefna Gísla Frey Brynjarsson sem lék fimm leiki með ÍA í Landsbankadeildinni í fyrra. Hann var að ganga upp úr 2. flokki og kemur á lánssamningi líkt og Brynjar Víðisson sem lék þrjá leiki með HK í Landsbankadeildinni í fyrra.

Spennandi verður að sjá Alfreð Elías Jóhannsson, hávaxinn sóknarmann sem er kominn frá Njarðvík. Alfreð kemur með nýjar víddir í sóknarleik Ólafsvíkinga og ætti að verða í lykilhlutverki hjá liðinu. Þó sóknarleikur hafi ekki verið aðalsmerki Víkinga þá hefur liðið einnig fengið Eyþór Guðnason frá HK. Eyþór átti erfitt uppdráttar hjá HK en var iðinn við kolann hjá Njarðvík á sínum tíma og vonast til að finna fjölina á ný.

Ólafsvíkingar voru án sigurs í Lengjubikarnum en reyndar hefur lítið verið að marka undirbúningstímabilið hjá liðinu undanfarin ár og allt annar bragur á því þegar út í alvöruna er komið. Liðið gerði þó jafntefli í leikjum sínum gegn 1. deildarliðunum tveimur sem voru með því í riðli.

Styrkleikar: Það er aldrei auðvelt fyrir lið að heimsækja völlinn á Ólafsvík sem er mikil gryfja. Sést það vel á því að þar fékk Víkingsliðið 15 af 20 stigum sínum í fyrra. Víkingar eru gríðarlega skipulagðir og með mjög samstillta vörn ásamt því að markvörður liðsins er sterkur. Þeir búa yfir ótrúlegri seiglu og hafa mjög reyndan þjálfara sem þekkir liðið eins og handarbakið á sér

Veikleikar: Leikmannahópurinn hefur ekki æft eins mikið saman í vetur og Víkingar hefðu viljað og það gæti haft áhrif. Breiddin er ekki mjög mikil og liðið má ekki við skakkaföllum. Setja má spurningamerki við það hvort nokkrir af ungu leikmönnum liðsins hafi þau gæði sem til þarf í 1. deild.

Þjálfari: Ejub Purisevic. Hefur þjálfað Víkingsliðið í sex ár. Er vægast sagt mjög varnarsinnaður þjálfari og nánast allir leikmenn á vellinum hafa varnarskyldum að gegna. Hann spilaði með Víkingsliðinu á sínum tíma en er nú bara að einbeita sér að því að þjálfa. Leggur mikið upp úr aga.

Lykilmenn: Einar Hjörleifsson, Dalibor Nedic og Alfreð Elías Jóhannsson.

Komnir: Alfreð Elías Jóhannsson frá Njarðvík, Eyþór Guðnason frá HK, Miroslav Pilipovic frá Slóveníu, Senid Kulas frá Bosníu, Brynjar Víðisson frá HK, Gísli Freyr Brynjarsson frá ÍA, Ingólfur Örn Kristjánsson frá Fylki.

Farnir: Peter Ferme til Slóveníu, Birgir Hrafn Birgisson í Breiðablik, Ellert Hreinsson í Stjörnuna, Josep Marosvec til Króatíu, Snæbjörn Aðalsteinsson í Ægi, Sigurður Víðisson til Fjarðabyggðar, Matej Grobovsek farinn, Helgi Reynir Guðmundsson farinn.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. Víkingur Ólafsvík 77 stig
11. Njarðvík 75 stig
12. KS/Leiftur 33 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner