Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mið 08. desember 2004 09:00
Wayne Rooney - Man Utd (17)
Við hér á Fótbolta.net stóðum fyrir kosningu á besta fótboltamanni heims í nóvembermánuði. Við ætlum að telja niður þá 24 efstu sem fengu flest atkvæði og á aðfangadag jóla verður besti leikmaður heims tilkynntur. Á hverjum degi verður einn leikmaður kynntur með pistli og í dag er það sá sem varð númer 17 í valinu:


17. Wayne Rooney

Nýja undrabarnið í enska boltanum heitir Wayne Rooney. Þessi strákur fæddist í Croxteth, Liverpool á 24. október árið 1985 og er því 19 ára gamall.

Hann ólst upp með foreldrum sínum, Jeanette og Wayne eldri í úthverfinu Croxteth ásamt tveimur bræðrum þeim Graham og John. Móðir hans var matráðskona í nálægum skóla. John Rooney er kominn á samning hjá Manchester United en gengið var frá því í október síðastliðnum. Slúðurblaðið The Sun segir að hann sé betri en Wayne Rooney var á hans aldri!

Öll fjölskyldan hefur alltaf verið miklir stuðningsmenn Everton. Herbergisglugginn hans Wayne litla var alltaf fullur af Everton fánum og herbergið hafði að geyma ýmsa muni tengda liðinu.

Rooney var aðeins níu ára gamall þegar Bob Pendleton, útsendari Everton sá hann spila. Þá spilaði hann með Copplehouse í Walton and Kirkdale unglingadeildinni. Á sínu síðasta tímabili með þeim skoraði hann 99 mörk áður en hann fór í unglingaakademíu Everton.
Hann var svo fljótur að dafna að hann spilaði fyrir 19 ára liðið aðeins 15 ára gamall. Rooney skoraði átta mörk í jafn mörgum leikjum fyrir unglingaliðið í FA bikarkeppninni á tímabilinu 2001/2002

Hann komst fyrst í aðallið Everton í æfingaleikjum fyrir tímabilið 2002/2003. Hann sló í gegn þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára gamall. Þegar aðallið Everton fór í æfingaferð til Austurríkis skoraði hann þrennu gegn SC Weiz. Hann gerði sér svo lítið fyrir og skoraði aðra þrennu, nú gegn QPR í æfingaleik á Englandi, aðeins viku síðar.

Á þeim tíma hafði Rooney aðeins leikið fjóra varaliðsleiki nokkuð sem sýnir hversu hratt honum skaut upp á stjörnuhiminn. Stjórnarformaður Everton árið 2002, Bill Kenwright sagði þetta um Rooney í júlí árið 2002:
"Ég var í útvarpsviðtali í gær og reyndi að draga úr athyglinni sem Rooney hefur fengið, en það er bara ekki hægt. Hvernig er ekki hægt að taka eftir frábærasta hlutnum sem er að gerast í fótboltanum í dag? Maður verður að reyna að verja hann frá okkur, stuðningsmönnum okkar og vonum en við erum með frábæran stjóra og ég vona að hann nái að ráða fram úr þessu."

Fyrsti leikur hans í úrvalsdeildinni var gegn Tottenham á fyrsta leikdegi tímabilsins 2002/2003. Rooney lagði þá upp mark fyrir Mark Pembridge. Það muna líklega allir eftir því sem gerðist næst. Smellið hér til að sjá myndband af því og fríska aðeins upp á minnið....
Rooney skoraði þetta magnaða mark þann 19. október árið 2002 gegn Arsenal á lokamínútu leiksins en þegar þar var komið við sögu hafði Arsenal ekki tapað í 30 leikjum í röð. Hann var þá aðeins 16 ára gamall en varð 17 ára fimm dögum síðar.

Þetta magnaða mark gerði hann að yngsta markaskorara úrvalsdeildarinnar frá upphafi. James Milner, þáverandi Leedsari, bætti metið reyndar nokkrum vikum síðar. Á tímabilinu 2002/2003 lék Rooney 33 leiki og skoraði 6 mörk.

Velgengni Rooney með Everton hjálpaði landsliðsferli hans í gang en hann varð yngsti leikmaður Englands til að spila í landsleik. Það var í tapleik gegn Áströlum þann 17. febrúar árið 2003. Þá var Rooney 17 ára. Hann varð svo yngsti markaskorarinn þegar hann skoraði gegn Makedóníu í undankeppni HM í september á sama ári.
David Moyes stjóri Everton reyndi að verja Rooney eftir bestu getu á tímabilinu 2003/2004. Hann spilaði 34 leiki og skoraði 9 mörk. Skapbræði hans var þó of mikil og hann fékk 12 gul spjöld á tímabilinu. Hann var heppinn að vera ekki rekinn af velli í að minnsta kosti einum leik, gegn Leicester.

Wayne Rooney varð markahæsti maður Englendinga á EM í Portúgal og þar stóð hann sig frábærlega. Sven Göran Eriksson lýsti honum sem mesta efni sem hann hefði séð síðan Pelé kom á sjónarsviðið árið 1958.
Á EM fékk hann vítaspyrnu gegn Frökkum. Hann sólaði Lilian Thuram upp úr skónum áður en Mikael Silvestre felldi hann. Rooney skoraði svo bæði gegn Sviss og Króatíu en það sem vakti mesta athygli var hversu fjölhæfur hann var. Markið hans gegn Sviss gerði hann að yngsta markaskorara í Evrópukeppni frá upphafi en svisslendingurinn Johan Vonlanthen tók metið af honum nokkrum dögum síðar. Rooney hlýtur að hafa orðið pirraður. Fyrst Milner og svo Vonlanthen!

Mótið endaði illa fyrir Rooney sem fótbrotnaði gegn Portúgal í 8-liða úrslitunum. Hann varð að fara af velli á 27. mínútu og reyndar þýddu meiðslin að hann missti af byrjuninni á yfirstandandi tímabili. England tapaði fyrir heimamönnum í vítaspyrnukeppni þar sem David Beckham klúðraði frægri vítaspyrnu.
Rooney var orðinn einn heitasti leikmaðurinn í heimi og það virtist ómögulegt fyrir Everton að halda í strákinn. Rooney var vaxinn upp úr klúbbnum sem ól hann upp en liðið hafði lítið annað að bjóða honum en baráttu á röngum enda deildarinnar.

Margir töldu best fyrir Rooney að vera bara áfram á Goodison Park og ekki æða strax í stóru liðin. Reyndar hefði Rooney aldrei farið frá Everton ef Newcastle hefðu ekki boðið í hann.

Eftir EM var komin mikil pressa á Everton um að Rooney skrifaði undir nýjan fimm ára samning sem hefði tryggt honum 50 þúsund pund á viku. Það hefði gert hann að hæst launaðasta leikmanni klúbbsins í sögunni. En Rooney tafði það að skrifa undir og þegar Newcastle hófu kapphlaupið um hann var orðin lítil von fyrir Everton að halda í hann.
Manchester United, Chelsea, Real Madrid og Newcastle voru öll orðuð við hann og Everton sá lítið annað í stöðunni en að skella 50 milljón punda verðmiða á Rooney! Nokkrum dögum fyrir lok félagaskiptagluggans í ágúst buðu Newcastle svo loksins í hann.

Þrátt fyrir að eiga fyrsta boðið var lítið von fyrir Newcastle að fá hann því Manchester United bauð líka í hann. Reyndar ætluðu Manchester menn ekki að bjóða í hann en sáu sig tilneydda því þeir vildu ekki missa hann til Newcastle.

Eftir aðeins tvö ár í aðalliði Everton fór Rooney frá liðinu sem hann studdi frá því í barnæsku. Mikil reiði var meðal stuðningsmanna liðsins en Everton var skuldum vafið og Rooney vildi fara frá félaginu.
Rooney skrifaði undir á Old Trafford, fjórum klukkustundum fyrir lok félagaskiptaluggans.

Það sem Everton fær fyrir Rooney:
  • 10 milljónir punda í gær (Öruggt)
  • 10 milljónir punda þann 30 júní árið 2005 (Öruggt)
  • 1 milljón punda greidd 1 ágúst árið 2006 (Öruggt)
  • 1 milljón punda greidd 1 ágúst árið 2007 (Öruggt)
  • 1 milljón punda greidd 1 ágúst árið 2008 (Öruggt)
  • 1 milljón punda ef Manchester United vinnur Meistaradeildina
  • 500,000 pund ef Manchester United lendir í örðu sætinu í Meistaradeildinni
  • 500,000 pund ef Manchester United vinnur Ensku Úrvalsdeildina
  • 250,000 pund ef Manchester United lendir í öðru sæti í Ensku Úrvalsdeildinni
  • 150,000 pund ef Manchester United vinnur FA bikarinn
  • 500,000 pund ef Rooney spilar meira en 20 landsleiki á meðan hann leikur fyrir United
  • 500,000 pund ef Rooney spilar aðra 20 landsleiki á meðan hann leikur fyrir United
  • Everton fær 25% af kaupverðinu ef Roney verður seldur frá Manchester United umfram kaupverð hans

    Samtals fær Everton minnst: 23 milljónir punda

    Samtals fær Everton mest: 26 milljónir og 400 þúsund pund
    Ef Rooney væri svo til dæmis seldur á 27 milljónir punda eftir 2 eða jafnvel 10 ár fær Everton 1 milljón punda af því vegna 4 milljón króna mismunarins.

    Ef fyrsti leikur hans fyrir Manchester United er eitthvað að marka, verður Rooney fljótlega goðsögn hjá félaginu. Hann skoraði glæsilega þrennu gegn Fenerbache þann 28. september. Rooney hefur nú spilað átta deildarleiki fyrir United og skorað þrjú mörk.

    Hann hefur þegar sannað hæfileika sína en hann á þó einn akkilesarhæl - skapið. Hann verður að hafa stjórn á því en hvað sem líður verður Rooney ein skærasta stjarna knattspyrnunnar í framtíðinni.



    Sjá einnig:
    Nr. 18: Paolo Maldini (AC Milan)
    Nr. 19: David Beckham (Real Madrid)
    Nr. 20: John Terry (Chelsea)
    Nr. 21: Cristiano Ronaldo (Manchester United)
    Nr. 22: Edgar Davids (Inter Milan)
    Nr. 23: Kaká (AC Milan)
    Nr. 24: Michael Owen (Real Madrid)



  • Athugasemdir
    banner
    banner