Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 01. desember 2004 09:00
Michael Owen - Real Madrid (24)
Við hér á Fótbolti.net stóðum fyrir kosningu á besta fótboltamanni heims í nóvembermánuði. Við ætlum að birta greinar um 24 efstu í kosningunni, einn á dag fram að jólum, og endum á besta leikmanni heims að mati lesenda síðunnar sem verður kynntur á aðfangadag. Í dag verður fyrsti leikmaður listans kynntur.


24. Michael Owen

Michael James Owen er fæddur þann 14. desember árið 1979 og verður hann því 25 ára gamall eftir tvær vikur. Owen er fæddur í Chester, Wales og byrjaði fljótt að sína mikla hæfileika með knöttinn. Saga hans er líklega draumur flestra enskra pilta....

Owen er kominn af mikilli knattspyrnufjölskyldu. Faðir hans, Terry Owen, spilaði knattspyrnu um árabil, þar á meðal með Everton sem Owen studdi þegar hann var ungur. Það átti þó eftir að breytast! Faðir hans rifjar svona upp æsku sonar síns: "Ég tók hann með að gamni til að leika sér með öðrum krökkum í fótbolta. Hann var 5 ára gamall. Flestir krakkarnir rétt gátu sparkað í boltann með tánni en Michael var að setja boltann utanfótar í markhornið.

Maður gat haldið að hann væri þrem til fjórum árum eldri en hann var. Það var stórmerkilegt. Ég man þegar ég horfði á hann út um eldhúsgluggann leika listir sínar. Alveg frá blautu barnsbeini vissi ég að hann yrði sérstakur. Helsti kostur hans er hversu fljótur hann er á fyrstu metrunum og hversu snöggur hann er að hugsa í þeirri stöðu. Hann hefur skorað hundruðir marka. Það er honum eðlislægt að skora mörk."
Átta ára gamall var Owen valinn til að leika með U-11 ára liði Deesidehéraðs. Níu ára gamall var hann orðinn fyrirliði. Tíu ára gamall sló hann 20 ára gamalt met Ian Rush hjá Deesideliðinu með því að skora 97 mörk á einu keppnistímabili en metið bætti hann um hvorki meira né minna en 25 mörk!

Owen stundaði nám sitt vel en þrátt fyrir góðan námsárangur þá var alltaf ljóst hvar framtíð hans lægi. Hann skrifaði undir hjá Liverpool á 17 ára afmælisdegi sínum, þann 14. desember árið 1996.

Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir Liverpool gegn Wimbledon þann 6. maí, 1997. Þá byrjaði hann á varamannabekknum en kom inná fyrir Patrick Berger á 58. mínútu. Það tók Owen ekki nema 16. mínútur að skora og verða þannig yngsti markaskorari Liverpool frá upphafi, 17 ára og 144 daga gamall.

Á tímabilinu 1997/1998 sló hann svo rækilega í gegn. Þá skoraði hann 23 mörk í öllum keppnum fyrir Liverpool og varð um leið heitasti unglingurinn í enska boltanum. Hann var valinn "Besti ungi leikmaður tímabilsins" og varð síðan yngsti leikmaðurinn til að spila fyrir enska landsliðið þegar hann spilaði gegn Chile, 18 ára og tveggja mánaða gamall.
Hann sló í gegn á HM í Frakklandi 1998 og skoraði eitt af mörkum keppninnar. Video af markinu er hægt að sjá með því að smella hér.

Hann skoraði einnig 23 mörk á tímabilinu 1998/1999 en í apríl gerðist nokkuð sem átti eftir að hafa mikil áhrif á feril hans. Þá meiddist Owen á hásin og það þýddi að hann varð frá í einn mánuð og þar með út tímabilið. Þessi meiðsli áttu svo eftir að koma upp aftur og aftur og aftur.

Meiðslin voru Owen erfið og á tímabilinu 1999/2000 skoraði hann aðeins 12 mörk. Honum gekk svo ekki vel á EM 2000 í Hollandi og Belgíu en þá var honum skipt útaf í öllum þremur leikjunum. Hann skoraði þó eitt mark, týpískt Owen mark, gegn Rúmeníu.
Owen byrjaði næsta tímabil, 2000/2001 mjög vel og var lengi vel á meðal markahæstu manna. En meiðsli sem og gott form hinna framherjanna á Anfield gerðu honum erfitt fyrir. Þrátt fyrir að skora tvö mörk gegn risunum frá Roma í UEFA bikarkeppninni varð hann að horfa á leikinn gegn Birmingham í úrslitum Worthington bikarkeppninnar frá hliðarlínunni. Liðið vann titilinn og var það byrjunin á þrennutímabilinu fræga hjá Liverpool.

Þegar dró nær lokum tímabilsins var Owen aftur kominn í sitt besta form og hann skoraði þrennu gegn Newcastle í maí og tvö gegn Chelsea í næsta leik. Hann skoraði átta mörk í fjórum leikjum í maí og voru þau gríðarlega mikilvæg liðinu.

Liverpool var 1-0 undir gegn Arsenal í úrslitaleik FA bikarsins á Þúsaldarvellinum í Cardiff þegar Micahel Owen tók til sinna ráða. Hann gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk og tryggði Liverpool titilinn og var eftir það kallaður "Prinsinn af Wales". Liverpool vann einnig Alaves í úrslitum UEFA keppninnar í mögnuðum leik sem endaði 5-4 eftir framlenginu.

Á næstu tveimur tímabilum blómstraði Owen og skoraði 28 mörk í öllum keppnum, bæði tímabilin. Hann spilaði með enska landsliðinu á HM 2002 í Japan og Suður-Kóreu þar sem han stóð sig með prýði.
Á síðasta tímabili var hann í misjöfnu formi. Hann skoraði 19 mörk í öllum keppnum en klúðraði mörgum vítaspyrnum og öðrum dauðafærum og margir urðu pirraðir á stráknum. Honum gekk einnig illa á Evrópumótinu í Portúgal en skoraði þar eitt mark.

Eftir tímabilið var Gerard Houllier látinn fara og Rafael Benítez tók við. Hann gerði það sem fáir bjuggust við, hann seldi Owen til Real Madrid fyrir 8 milljónir punda, auk Antonio Nunez sem fór til Liverpool.

Owen verður ávallt hetja í Liverpool og ekki er ólíkegt að ef hann snýr aftur til Englands, fari hann aftur til Liverpool.

Núna nýtur hann lífsins í Madríd en hann er óðum að finna sitt rétta form eftir erfiða byrjun á Spáni. Svo erfiðlega gekk reyndar að Portsmouth
íhugað að reyna að fá hann lánaðan! En Owen hefur sýnt það og sannað að hann er markaskorari af Guðs náð og spennandi verður að fylgjast með honum hjá einu af besta liði heims, Real Madrid. Owen er giftur Louise Bonsall og saman eiga þau eina dóttir sem heitir Gemma Rose.

Heimildir:
Liverpool.is
LFCHistory.net

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner