banner
   mán 01. júní 2020 22:25
Ívan Guðjón Baldursson
Man Utd borgar rúmlega 10 milljónir fyrir Ighalo
Mynd: Getty Images
Manchester United er búið að staðfesta að nígeríski sóknarmaðurinn Odion Ighalo verður áfram hjá félaginu að láni frá Shanghai Shenhua út janúar.

Daily Mail greinir frá því að Rauðu djöflarnir borga 6 milljónir punda til að framlengja lánssamninginn auk þess að greiða 40% launa hans, eða 130 þúsund pund á viku. Í heildina eru þetta rúmlega 10 milljónir punda.

Ighalo var upprunalega lánaður til Man Utd í janúar og þótti standa sig vel áður en allt var stöðvað vegna Covid-19. Ighalo, sem verður 31 árs í júní, skoraði fjögur mörk í átta leikjum. Hann hefur verið stuðningsmaður Man Utd frá æsku.

Hann vildi ekki snúa aftur í kínverska boltann en ekki hefur verið ákveðið hvenær fótboltinn fer aftur af stað þar eftir Covid-19. Hann sannfærði því Shanghai um að leyfa sér að spila í enska boltanum í hálft ár í viðbót.

Kínverska ríkisstjórnin hefur staðfest að engin Visa-leyfi verði gefin erlendum ríkisborgurum fyrr en í október og því hefði Ighalo verið ónothæfur þar til í haust.

Shanghai bauð Ighalo bættan samning til 2024 með 400 þúsund pund í vikulaun en sóknarmaðurinn kaus að vera áfram í Manchester.
Athugasemdir
banner
banner
banner