mán 02. desember 2019 10:45
Elvar Geir Magnússon
Hefur kannað áhuga annarra félaga á Steven Lennon
Steven Lennon hefur mikið verið í umræðunni.
Steven Lennon hefur mikið verið í umræðunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samkvæmt heimildum Fótbolti.net hefur umboðsmaður Steven Lennon, sóknarleikmanns FH, kannað áhuga annarra félaga á Skotanum. Lennon er þó með samning við FH út tímabilið 2021.

Umboðsskrifstofan Deadline Day Sport er með Lennon á sinni skrá.

Haft hefur verið samband við Val og kannað áhuga félagsins á þessum 31 árs leikmanni. Þá voru sögusagnir í gangi um að Lennon færi mögulega til Íslandsmeistara KR.

„Þetta hefur ekkert komið til umræðu hjá okkur eða á okkar borð, enda er þessi umræddi leikmaður samningsbundinn sínu félagi," sagði Kristinn Kjærnested, formaður KR, við 433.is í síðustu viku.

Lennon hefur ekki spilað með FH í Bose mótinu og sagan segir að Fimleikafélagið skuldi honum laun. Þær sögur fengu byr undir báða vængi þegar Lennon birti mynd á Instagram af syni sínum að grafa á ströndinni og skrifaði þar við að hann væri að leita að launagreiðslum sínum.

„Menn verða að kunna sig á samfélagsmiðlunum," sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, þegar hann var spurður út í færsluna.

FH hafnaði í þriðja sæti í Pepsi Max-deildinni á liðnu tímabili og verður í Evrópukeppninni á næsta ári. Lennon hefur verið einn besti leikmaður Íslandsmótsins síðan hann kom til Íslands en hann hefur verið hjá FH síðan 2014.
Athugasemdir
banner
banner
banner