'Okkur líður mjög vel að vera komnir í úrslitaleik, erum mjög stoltir af því að vera komnir í þá stöðu að vera spila um eitthvað í síðasta leik.'
Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari Breiðabliks, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í gær. Blikar mæta Strasbourg í lokaumferð Sambandsdeildarinnar í kvöld, leikurinn hefst klukkan 20:00 að íslenskum tíma og fer fram á Stade de La Meinau.
Breiðablik þarf að vinna leikinn til eiga möguleika á að komast í umspilið um sæti í 16-liða úrslitum en Strasbourg, sem er á toppi Sambandsdeildarinnar, er öruggt með sæti í 16-liða úrslitunum.
Breiðablik þarf að vinna leikinn til eiga möguleika á að komast í umspilið um sæti í 16-liða úrslitum en Strasbourg, sem er á toppi Sambandsdeildarinnar, er öruggt með sæti í 16-liða úrslitunum.
Ungt og skemmtilegt lið
„Leikurinn leggst bara vel í mig, virkilega skemmtilegur leikur að fá gegn hörku mótherja, frábærar aðstæður, frábær völlur. Við hlökkum bara mikið til," sagði Óli.
Hvað vissuð þið um klúbbinn áður en þið komuð hingað?
„Sögulega höfum við ekki grafið mjög djúpt, en við erum búnir að skoða þá vel og vitum að það er búið að byggja upp hörkulið, mjög ungt og skemmtilegt fótboltalið sem spilar frábæran fótbolta og hefur staðið sig vel undanfarin ár í frönsku úrvalsdeildinni. Þetta er alvöru verkefni fyrir okkur, en við erum galvaskir, höfum engu að tapa og förum af fullum krafti inn í þetta."
Óli var spurður af frönskum fjölmiðlamanni hvort hann fylgdist vel með frönsku deildinni og stærstu deildum Evrópu.
„Auðvitað fylgist maður með öllum topp deildunum, en enska deildin á svolítið íslenska markaðinn þegar kemur að markaðinn þegar kemur að áhorfendafjölda. Það eru mjög stór félög í Frakklandi sem hafa sögulega séð staðið sig vel í Evrópudeildum. Maður horfir kannski ekki á ótalmagn af leikjum í frönsku deildinni, en alltaf með annað augað á þessu."
Andleg og líkamleg heilsa mjög góð
Hvernig er standið á mönnum tæpum tveimur mánuðum eftir að Íslandsmótinu lauk?
„Við höfum náð að halda takti með æfingaleikjum og núna er bara vika á milli leiksins gegn Shamrock og leiksins gegn Strasbourg. Mér finnst við hafa náð að halda góðum takti og viðhalda hungri á sama tíma. Ég myndi segja að andleg og líkamleg heilsa leikmanna sé mjög góð og held að við séum vel undirbúnir fyrir leikinn."
Mjög stoltir
„Það er mikið undir fyrir okkur, þetta er lið í topp fimm deild í Evrópu, lið sem er með tengingu við stóran klúbb á Englandi (Chelsea). Þeir spila mjög heillandi fótbolta sem var virkilega gaman að greina. Mikið af öflugum ungum leikmönnum að spila, góð blanda af því að vera með ungt og skemmtilegt lið en samt ná árangri. Þeir enduðu í 7. sæti á síðasta tímabili og eru í 7 sæti núna. Mér skilst að það eigi margir eftir að koma á völlinn á morgun og það er geggjað fyrir okkur."
„Okkur líður mjög vel að vera komnir í úrslitaleik, erum mjög stoltir af því að vera komnir í þá stöðu að vera spila um eitthvað í síðasta leik. Það skiptir okkur gríðarlegu máli að koma hingað með einhvern tilgang. Við vitum að þeir er með hörku lið en við erum Íslendingar og við þekkjum að spila á móti stærri mótherjum. Það hræðir okkur ekki, það á að vera auka innspýting fyrir okkur. Við hugsum þetta sem hreinan úrslitaleik og munum leggja allt í sölurnar."
Sýningargluggi fyrir leikmenn
Finnst leikmönnum þetta vera tækifæri til að sýna sig fyrir stórum liðum í Frakklandi og Evrópu?
„Klárlega. Þetta er stærsta sviðið og það gefur mönnum innspýtingu. Það er klárt að það gefur mönnum auka byr undir seglin að það sé fylgst vel með og það að spila á stærsta sviðinu er það sem alla dreymir um. Það vilja alir standa undir því og gera eins vel og hægt er. Þetta er svið sem við viljum vera á og menn vilja máta sig gegn leikmönnum í hæsta gæðaflokki," sagði Óli.
Athugasemdir




