Jólin eru handan við hornið og nóg af leikjum framundan í enska boltanum. Slúðrið tekur sér ekkert jólafrí en BBC tók saman það helsta sem er í umræðunni.
Mikið ber á milli í viðræðum Manchester United og Roma um Joshua Zirkzee (24). Enska félagið vill um 35 milljónir punda fyrir hollenska sóknarmanninn og er tregt til að samþykkja lánstilboð. (Corriere dello Sport)
Barcelona vill framlengja samning Hansi Flick (60) til 2028 en þýski stjórinn skrifaði í maí á þessu ári undir samning við Spánarmeistarana til 2027. (Bild)
Barcelona vill fá örvfættan miðvörð og horfir til spænska varnarmannsins Pau Torres (28) hjá Aston Villa og þýska landsliðsmannsins Nico Schlotterbeck (26) hjá Borussia Dortmund. (ESPN)
Það verður forgangsatriði hjá Chelsea í sumar að styrkja miðsvæði sitt en Kobbie Mainoo (20) hjá Manchester United og Adam Wharton (21) hjá Crystal Palace hafa verið orðaðir við bláliða. (Telegraph)
Crystal Palace skoðar kosti í hægri vængbakvörð fyrir janúargluggann eftir að Daniel Munoz (29) meiddist. Kólumbíski landsliðsmaðurinn gæti verið frá í nokkurn tíma. (Sky Sports)
Einn af þeim leikmönnum sem Palace hefur áhuga á er Sacha Boey (25), bakvörður Bayern München, en búist er við því að hann yfirgefi þýska félagið í næsta mánuði. (Standard)
Oliver Glasner, stjóri Palace, býst við því að Marc Guehi (25) verði út samningstímann hjá félaginu og klári tímabilið. (Standard)
AC Milan er í viðræðum um kaup á þýska sóknarmanninum Niclas Fullkrug (32) frá West Ham. Ítalska félagið hefur boðist til að fá hann á láni með möguleika á kaupum. (Bild)
Ole Gunnar Solskjær vildi að Manchester United myndi kaupa Erling Haaland, Jude Bellingham og Declan Rice á meðan hann var stjóri á Old Trafford. Félagið keypti hinsvegar í staðinn Donny van de Beek, Jadon Sancho og Cristiano Ronaldo. (Mail)
Ólíklegt er að Leeds muni borga 25 milljónir punda fyrir mexíkóska sóknarmanninn Santiago Gimenez (24). Í staðinn mun Leeds skoða tímabundna lausn í leit að sóknarmanni í janúarglugganum. (Football Insider)
Bayern München reyndi að fá þýska sóknarmanninn Nick Woltemade (23) áður en hann gekk í raðir Newcastle United frá Stuttgart. Woltemade segist ánægður með að málin þróuðust á þennan veg. (Sport Bild)
Félög í Championship-deildinni hafa áhuga á enska miðjumanninum Alfie Harrison (20) sem á enn eftir að spila fyrir aðallið Newcastle síðan hann kom frá Manchester City á síðasta ári. (Sky Sports)
Athugasemdir



