Meiðsli Bukayo Saka líta ekki vel út
Arsenal tapaði útileik gegn Lens í Meistaradeild Evrópu í kvöld og var þetta fyrsti tapleikur lærisveina Mikel Arteta á nýju tímabili.
Arteta gerði aðeins tvær breytingar á byrjunarliði Arsenal eftir 0-4 sigur gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn og fór Bukayo Saka meiddur af velli eftir um hálftímaleik.
Saka hafði unnið boltann hátt uppi á vellinum til að leggja upp opnunarmark leiksins fyrir Gabriel Jesus, en núna vonast Arteta og stuðningsmenn Arsenal að stjörnuleikmaðurinn sinn verði ekki frá til lengri tíma.
„Hann meiddist þegar hann reyndi hælsendingu, við munum ekki vita hvort meiðslin séu alvarleg fyrr en eftir rannsóknir, en þetta lítur ekki vel út," sagði Arteta um Saka.
„Við spiluðum gegn virkilega sterkum andstæðingum í kvöld og áttum erfitt með að skapa okkur færi. Sóknarleikurinn hefur oft verið betri en þegar við fengum góð færi þá klúðruðum við þeim. Það munaði ekki miklu á liðunum í dag, þeir voru betri heldur en við inni í vítateig og þess vegna sigruðu þeir leikinn. Við nýttum færin ekki nógu vel og vörðumst ekki nógu vel í mörkunum þeirra.
„Þetta var stórt kvöld fyrir okkur. Við sóttum ekki úrslitin sem við vildum en í staðinn lærðum við eitthvað nýtt."
Arsenal er með þrjú stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Lens er á toppi riðilsins með fjögur stig en svo er Sevilla með tvö stig og PSV Eindhoven eitt.
Núna munu Arteta og lærisveinar hans snúa sér að undirbúningi fyrir stórleikinn gegn Manchester City, sem er á dagskrá næsta sunnudag.
Athugasemdir