Þórður Gunnar Hafþórsson var kynntur sem nýr leikmaður Vestra á fimmtudagskvöld. Hann er mættur eftir nokkra ára fjarveru frá félaginu, hann er uppalinn í Vestra en hefur leikið með Fylki og Aftureldingu síðustu ár.
Degi seinna var svo Pape Abou Cisse tilkynntur sem nýr leikmaður Vestra. Fótbolti.net ræddi við Samúel Samúelsson, formann meistaraflokksráðs hjá Vestra, um komu leikmannanna.
Degi seinna var svo Pape Abou Cisse tilkynntur sem nýr leikmaður Vestra. Fótbolti.net ræddi við Samúel Samúelsson, formann meistaraflokksráðs hjá Vestra, um komu leikmannanna.
„Ég held að ég hafi hringt í Þórð tveimur mínútum eftir að ég sá fréttina frá ykkur um að hann hefði rift við Aftureldingu," segir Sammi.
Vestri vildi ekki missa Þórð, sem er 24 ára kantmaður, þegar hann fór frá félaginu eftir tímabilið 2019. Félagið hefur reynt að fá Þórð aftur heim, en af hverju tókst það núna?
„Það er klárlega rétt, við sáum mikið eftir honum þegar hann fór frá okkur á sínum tíma. Við áttum svo spjall við hann áður en hann fór í Aftureldingu en þá hentaði það honum ekki að flytja vestur þar sem hann var að fara í inntökupróf í námi."
„Hann er áfram í skóla í Reykjavík fram að vori en kemur til Ísafjarðar í apríl. Þórður er fæddur og uppalinn á Ísafirði og það er frábært að fá hann aftur heim í Vestra," segir Sammi.
Vill fá 4-5 leikmenn til viðbótar
Hann var svo spurður út í stöðuna á hópnum.
„Okkur líst bara vel á þann hóp sem er til staðar núna, hann er ekki stór þannig að við ætlum okkur klárlega að styrkja hann. Við, eins og aðrir, erum að skoða markaðinn og sjá hvað er í boði."
„Við erum að taka 4-5 stráka upp úr 2. flokki og við höfum trú á því að þessir strákar séu að fara að nýta tækifærin sem þeir fá mjög vel. Svo eru þeir Johannes Selven, Emmanuel Duah, Abou Diagne og Birkir Eydal allt strákar sem við höfum trú á að gæti stækkað töluvert."
„Það er búið að sækja Cisse og Þórð og þeir Elmar, Pétur, Guðmundur Arnar, Cafu og Fall hafa allir framlengt samningana sýna. Guðmundur Páll kemur svo heim úr skóla i vor."
„Við erum ennþá að ræða við tvo leikmenn sem voru hjá okkur í sumar og vonandi skýrist það sem fyrst hvort að þeir taki slaginn með okkur áfram."
„Við viljum bæta við 4-5 leikmönnum í viðbót, en við verðum að reyna að velja þá vel. Hvort þeir komi fljótlega eða í mars verður bara að koma i ljós."
„Ég held að það að spila fyrir Vestra næsta sumar gæti verið góður gluggi fyrir leikmenn, við spilum leik við Víking um meistari, meistaranna og fáum svo allavega fjóra Evrópuleiki - sem við ætlum reyndar að hafa fleiri."
Bíður eftir símtalinu
Sammi vonast til þess að Ísfirðingurinn Matthías Vilhjálmsson taki skóna úr hillunni og taki eitt tímabil fyrir vestan. Matthías er 38 ára og lagði skóna á hilluna eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með Víkingi í haust. Hann hóf meistaraflokksferilinn með BÍ fyrir 22 árum.
„Ég er enn að bíða eftir símtalinu frá Matta Villa, ef ég man rétt spilaði hann sinn fyrsta meistaraflokksleik hérna 13-14 ára, það væri fallegt ef hann myndi loka þessu hérna heima. Það væri geggjað að fá hann í hópinn þó svo að það væri bara í sumar."
„Fyrir utan það að vera eðaldrengur þá sýndi hann í sumar að það eru enn töfrar í skónum hans. Hann er mikil fyrirmynd fyrir stráka héðan af svæðinu og hann er búinn að eiga magnaðan ferill, skórnir hafa verið teknir niður úr hillunni fyrir minna tilefni en þetta," segir Sammi.
Í seinni hluta viðtalsins , sem birtist seinna í dag, verða birt svör Samma um komu Cisse til félagsins.
Athugasemdir




