Branthwaite á lista Man Utd - Lampard vill ræða við Rangers - Messi ætlar að klára ferilinn í Argentínu
   mán 05. júní 2023 15:18
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Svona var skýrslan - „Ætla ekki að gera lítið úr upplifun Arnars"
watermark Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var gestur í útvarpsþættinum Fótbolta.net á laugardag og fór þar yfir stórleikinn gegn Víkingum í Bestu deildinni. Það er óhætt að segja að mikið hafi gengið á í leiknum.

Víkingar komust 0-2 yfir í fyrri hálfleiknum og héldu þeirri forystu alveg fram í uppbótartíma leiksins, en þá skoruðu Blikar tvisvar og jöfnuðu.

Óskar talaði um það eftir leikinn að Blikar hefðu verið með Víkinga í köðlunum en Arnar Gunnlaugsson var því ekki sammála. Hann sagði í viðtali við Morgunblaðið að það væri einhver mesta þvæla sem hann hefði heyrt.

„Mér leið vel með þennan leik og mér fannst við hafa stjórn á því sem við vildum hafa stjórn á. Ég ætla ekki að gera lítið úr upplifun Arnars. Honum fannst hann líka hafa stjórn og það er bara eðlilegt. Ég held að það sé alveg eðlilegt þó það hljómi pínu klikkað að tveir aðilar séu gjörsamlega á öndverðum meiði um það hvernig þeir meta leikinn," sagði Óskar í þættinum.

„Í hans stjórn fólst að einhverju leyti stjórnin okkar, og öfugt. Mér leið vel. Við erum alls ekki lið sem höfum verið með flugeldasýningar á þessu ári en mér fannst þetta að mörgu leyti ein heilsteyptasta frammistaðan okkar á milli teiga. Það gladdi mig. Svo sér hann þetta á þannig hátt að þeir voru með leikinn í sínum höndum og köstuðu honum frá sér á síðustu mínútu í uppbótartíma. Hver er ég að gera lítið úr því? Ég hef skilning á því."

Tómas Þór Þórðarson velti þá upp þeirri pælingu að stjórna með að verjast. Breiðablik var meira með boltann og skapaði sér hættulegri færi í leiknum, og fleiri færi.

„Ég er mjög stressaður stuðningsmaður en ég var ekki hræddur út af síðasta þriðjungi. Teig í teig og með boltann, þetta hlýtur að vera 65 prósent. En bitið á síðasta þriðjungi, mér fannst það vanta," sagði Tómas, sem er stuðningsmaður Víkings, um frammistöðu Breiðabliks í leiknum en Óskar benti þá á þann punkt að sóknarlína Breiðabliks væri mikið breytt frá síðasta tímabili og þeir þyrftu að aðlaga sig að því.

„Við vorum ekki með 30 skot á markið en vorum samt með 2,07 í xG. Ég held að það sé mjög 'decent' á móti liði eins og Víking, sérstaklega gegn liði sem vildi stjórna með varnarleik. Við getum ekki kvartað yfir því. Tölurnar segja að við fengum færin til að skora þessi mörk sem við skoruðum. Þú vilt alltaf meira. Við viljum fá meira flæði í sóknarleikinn okkar... við eigum töluvert inni sóknarlega," sagði Óskar.

Hér fyrir neðan má sjá skýrsluna úr leiknum og einnig er hægt að hlusta á allt viðtalið við Óskar í útvarpsþættinum. Víkingur er á toppnum með fimm stiga forskot á Breiðablik, en það verður frábært að fylgjast með þessari titilbaráttu næstu vikur.


Óskari fannst Víkingar vera í köðlunum - „Byrja að tefja á 30. mínútu"
Útvarpsþátturinn - Óskar Hrafn og toppslagurinn þar sem allt sauð upp úr
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner