Man Utd ætlar að bjóða Calvert-Lewin samning - Al Nassr á eftir Rodrygo - Chelsea fylgist með stöðu Nwaneri
   mán 07. júlí 2025 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Gullbikarinn: Mexíkó vann úrslitaleikinn gegn Bandaríkjunum
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Bandaríkin 1 - 2 Mexíkó
1-0 Chris Richards ('4)
1-1 Raul Jimenez ('27)
1-2 Edson Alvarez ('78)

Bandaríkin og Mexíkó áttust við í úrslitaleik norður-ameríska Gullbikarsins í nótt og tóku heimamenn forystuna snemma leiks er liðin mættust í Houston, Texas.

Chris Richards varnarmaður Crystal Palace skoraði með skalla eftir góða aukaspyrnu frá Sebastian Berhalter.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn en nágrönnunum frá Mexíkó tókst að jafna metin. Þar var úrvalsdeildarkempan Raúl Jiménez, sem er samningsbundinn Fulham sem stendur, að verki. Hann skoraði laglegt mark eftir góðan undirbúning frá Marcel Rúiz.

Staðan var jöfn í leikhlé en í síðari hálfleik voru Mexíkóar talsvert hættulegri. Bandaríkjamenn sköpuðu sér lítið sem ekkert áður en Edson Álvarez, miðjumaður West Ham, tók málin í sínar hendur og náði forystunni fyrir Mexíkó.

Dómari leiksins flautaði rangstöðu til að byrja með en eftir athugun í VAR herberginu var dæmt mark. Álvarez skoraði með skalla eftir að hafa fengið skallasendingu frá Johan Vásquez, fyrrum liðsfélaga Alberts Guðmundssonar hjá Genoa.

Bandaríkjamenn gerðu sig ekki líklega til að jafna metin svo niðurstaðan varð verðskuldaður sigur fyrir Mexíkó sem er að vinna Gullbikarinn í tíunda sinn.

Mexíkó er með tíu sigra í Gullbikarnum, Bandaríkin sjö og Kanada hefur einu sinni unnið. Engin önnur þjóð hefur unnið mótið, en Panama og Jamaíka hafa nokkrum sinnum endað í öðru sæti.

Þá hefur Brasilía tvisvar endað í öðru sæti sem gestalið mótsins, það gerðist árin 1996 og 2003. Mexíkó vann úrslitaleikina í bæði skiptin án þess að fá mark á sig. Brasilía hreppti þá bronsverðlaunin árið 1998 eftir tap gegn Bandaríkjunum í undanúrslitaleiknum.

Mexíkó og Bandaríkin sigruðu gegn Hondúras og Gvatemala til að komast í úrslitaleikinn í ár. Sádi-Arabía var sérstök gestaþjóð í ár.
Athugasemdir
banner