Hollenski varnarmaðurinn Jerry St. Juste hefur verið settur í varalið Sporting fyrir þessa leiktíð, en hann fékk tíðindin frá fjölmiðlum. Hann sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem hann gagnrýnir vinnubrögð félagsins.
Þessi 28 ára gamli miðvörður spilaði 28 leiki á síðustu leiktíð er liðið varð deildar- og bikarmeistari.
Í sumar var honum tjáð að hann væri hluti af framtíðarhorfum félagsins og því mætti hann ekki fara. Á sama tíma hafnaði félagið áhuga frá Þýskalandi.
Eftir æfingu í dag komst St. Juste að því í gegnum fjölmiðla að félagið væri búið að setja hann í varaliðið fyrir komandi tímabil, sem kom honum í opna skjöldu eftir fyrri samtöl við stjórnarmeðlimi Sporting.
Gagnrýnir hann samskiptaleysið og ákvarðanir hjá stjórninni, en tekur samt fram að hann muni leggja sig allan fram með varaliðinu á tímabilinu.
Glugginn er enn opinn í nokkrum löndum í Evrópu og í Sádi-Arabíu og því enn tími fyrir hann til að finna sér nýjan klúbb, það er að segja ef Sporting breytir afstöðu sinni og leyfir honum að fara.
St. Juste spilaði áður með Mainz, Feyenoord og Heerenveen og á þá fjölda leikja með yngri landsliðum Hollands.
Athugasemdir