Hákon Arnar Haraldsson gekk í raðir Lille sumarið 2023. Stuttu síðar gekk yngri bróðir hans, Haukur Andri, einnig í raðir félagsins og fór í unglingaliðið.
Haukur hefur sjálfur talað um að umhverfið í unglingaliðum Lille hafi verið erfitt, þar hafi verið mikil samkeppni og lítið um vinskap.
Haukur hefur sjálfur talað um að umhverfið í unglingaliðum Lille hafi verið erfitt, þar hafi verið mikil samkeppni og lítið um vinskap.
Hákon tekur undir með bróður sínum og segir að franski skólinn sé erfiður fyrir unga leikmenn.
„Það var gott að hafa hann hjá mér," sagði Hákon við Fótbolta.net og Livey.
„Hann átti erfitt uppdráttar þar sem franski skólinn er mjög erfiður. Maður sér það á leikmönnum sem eru að koma upp, jafnvel Frakkar. Það var enginn sem talaði ensku og félagslífið var voðalega lítið. Honum leið ekki nógu vel. En það var gott að hafa hann hjá mér. Þetta gekk ekki upp í þetta skiptið."
Haukur fór aftur í ÍA en hann er virkilega efnilegur leikmaður. Hákon er í aðalliði Lille og er á leið inn í sitt þriðja tímabil í Frakklandi.
Hákon var spurður hvort hann og Haukur væru líkir leikmenn.
„Ég veit það ekki alveg. Hann er meiri sexa og ég er sóknarsinnaðari. Hann er meiri miðjumaður. Það eru margir sem segja að við séum líkir inn á vellinum samt. Ég reyni að horfa eins mikið og ég get á þá. Ég sá Tryggva (Hrafn Haraldsson) skora í gær gegn Aftureldingu. Hann hefði mátt skora þrennu en það er annað mál. Ég reyni að vera duglegur að horfa á þá. Það gengur ekki nógu vel hjá ÍA en þeir vonandi ná að klára þetta í endann. Það er erfitt, aldrei næs að sjá sína menn neðsta. En svona er fótboltinn, mikið upp og niður."
Athugasemdir