Sænski landsliðsmaðurinn Hugo Larsson hafnaði félögum frá Sádi-Arabíu í sumar eftir símtal við móður sína, en hann segist ánægður með ákvörðun sína.
Larsson, sem er 21 árs gamall, er gríðarlega öflugur miðjumaður sem hefur verið að gera það gott með Eintracht Frankfurt í Þýskalandi.
Í sumar kom upp áhugi frá Sádi-Arabíu. Miklir peningar voru í spilinu og þurfti hann að hugsa sig vel og vandlega um áður en hann tók ákvörðun, en það þurfti að vísu bara eitt símtal til þess að sannfæra hann um að vera áfram í Evrópuboltanum.
„Já, í raun og veru. Mér fannst gaman að hlusta á þetta, en ég hringdi í mömmu sem las mér pistilinn fyrir það eitt að íhuga þetta tilboð,“ sagði Larsson við Fotbollskanalen.
„Hún sagði bara: „Nei, nei, nei, þú ferð ekki þangað!“ og bætti fleiru við. Hún á sér draum um að sonur hennar spili áfram í Evrópu, en þetta var allt saman mjög fyndið,“ sagði hann ennfremur.
Larsson er spenntur fyrir þessu tímabili. Frankfurt er eitt af sterkustu liðum Þýskalands og mun spila í Meistaradeild Evrópu á leiktíðinni.
Athugasemdir