Glugginn í Sádi-Arabíu er enn opinn - Onana, Sterling, Disasi, Santos og Silva orðaðir við félög þaðan
   fim 04. september 2025 13:30
Elvar Geir Magnússon
Dowman gæti orðið sá yngsti í sögu Meistaradeildarinnar
Max Dowman.
Max Dowman.
Mynd: EPA
Hinn 15 ára gamli Max Dowman hefur verið valinn í Meistaradeildarhópinn hjá Arsenal. Dowman lék sinn fyrsta aðalliðsleik fyrir Arsenal í síðasta mánuði, þegar hann kom af bekknum í leik gegn Leeds í ensku úrvalsdeildinni.

Þá kom miðjumaðurinn ungi af bekknum gegn Liverpool á Anfield í síðustu viku og nú er möguleiki að hann verði yngsti leikmaður í sögu Meistaradeildarinnar. Hann verður 16 ára 31. desember og það eru sex leikir í Meistaradeildinni áður en kemur að því.

Núverandi met á Youssoufa Moukoko sem var 16 ára og 18 daga gamall þegar hann spilaði fyrir Borussia Dortmund í keppninni árið 2020.

Arsenal skilaði inn Meistaradeildarhópnum sínum í gær en þar er Gabriel Jesus ekki skráður. Brassinn hefur verið frá síðan í janúar vegna hnémeiðsla. Hægt er að bæta honum við hópinn eftir að deildarkeppninni lýkur.

Þó Ethan Nwaneri og Myles Lewis-Skelly séu ekki skráðir í Meistaradeildarhópinn þá eru þeir löglegir í keppninni þar sem þeir falla undir flokk leikmanna 21 árs og yngri sem hafa verið í aðalliðshóp í tvö ár.

Arsenal á leik gegn Athletic Bilbao í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar.

Meistaradeildarhópur Arsenal: David Raya, Kepa Arrizabalaga, Tommy Setford; William Saliba, Cristhian Mosquera, Ben White, Piero Hincapie, Gabriel, Jurrien Timber, Riccardo Calafiori; Martin Odegaard, Eberechi Eze, Christian Norgaard, Leandro Trossard, Noni Madueke, Mikel Merino, Kai Havertz, Martin Zubimendi, Declan Rice, Max Dowman; Viktor Gyökeres, Bukayo Saka, Gabriel Martinelli.
Athugasemdir