
Ísland mætir Úkraínu og Frakklandi í komandi leikjum í undankeppni HM. Logi Tómasson kom ekki við sögu í síðasta landsliðsglugga en Fótbolti.net ræddi við hann á hóteli landsliðsins í dag.
„Auðvitað eru það alltaf vonbrigði að spila ekki og auðvitað var maður svekktur. En maður verður að styðja við menn sem eru að spila meðan maður er ekki sjálfur að spila. Svo vonar maður að maður fái sénsinn núna.“
Var erfitt að horfa á leikina frá bekknum?
„Auðvitað vill maður spila, en nei þetta voru flottir leikir sem við spiluðum. Ekkert svakalega erfitt.“
Logi gekk til liðs við Samsunspor í Tyrklandi í sumar frá norska liðinu Stromsgodset og hefur byrjað afar vel í Tyrklandi.
„Það er að ganga mjög vel, góð byrjun hjá mér og liðinu er búið að ganga fínt. Ég er mjög sáttur þar.“
„Þetta er allt annað, maturinn og fólkið. Þetta er allt mun stærra og mér finnst það mjög skemmtilegt, hentar mér vel að vera þarna.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum fyrir ofan.