Arsenal á góða möguleika á að fá Rodrygo - Atletico leggur allt kapp á að fá Romero - West Ham hafnaði tilboði í Kudus
   fim 09. apríl 2020 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fékk falleg skilaboð frá Henry - „Þú ert hetjan mín"
„Halló Shae, þetta er Thierry hérna. Ég vildi bara láta þig vita að þú ert hetjan mín."

Svona hljóðar byrjunin á skilaboðum sem Thierry Henry, goðsögn hjá Arsenal og franska landsliðinu, sendi á Shae Hutchinson, ungan sóknarmann Norwich City.

Hutchinson, sem er tvítugur, er með Alport-heilkenni sem hefur áhrif á nýrnavirkni, sjón, heyrn og veldur þreytu. Þar sem hann er með þennan sjúkdóm þá er hann í áhættuhópi þegar kemur að kórónuveirunni.

Hann fór í sína fyrstu nýrnaígræðslu árið 2018 og missti af öllu 2018/19 tímabilinu. Hann fékk nýra frá föður sínum, en núna þarf hann hins vegar aftur að fá nýtt nýra. Móðir hans er með sama sjúkdóm og er í sömu stöðu, en hún hefur verið á biðlista frá því snemma árs 2019.

Hutchinson segist þurfa að fara í nýrnaígræðslu sem fyrst, en hann sé enn straðráðinn í því að spila í ensku úrvalsdeildinni einn daginn. Leikstíl hans hefur verið líkt við leikstíl Jamie Vardy, sóknarmanns Leicester.

Í viðtali við BBC sagði Hutchinson: „Líf mitt snýst um fótbolta og er stoltur af því sem ég hef afrekað. Skilaboð mín til annarra eru að elta drauminn, ekki gefast upp, ekki láta neitt hindra þig. Ef þú vilt eitthvað, farðu þá og gerðu það."

Hér að neðan má sjá skilaboðin frá Henry, sem þjálfaði Hutchinson í akademíu Arsenal á sínum tíma.


Athugasemdir
banner