Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   fim 09. apríl 2020 12:00
Elvar Geir Magnússon
Tíu mestu leikmannaerjur enska boltans
Wayne Bridge og John Terry. Þegar allt lék í lyndi.
Wayne Bridge og John Terry. Þegar allt lék í lyndi.
Mynd: Getty Images
Roy Keane hraunar yfir Haaland.
Roy Keane hraunar yfir Haaland.
Mynd: Getty Images
Robbie Fowler var umdeildur.
Robbie Fowler var umdeildur.
Mynd: Getty Images
Luis Suarez og Patrice Evra.
Luis Suarez og Patrice Evra.
Mynd: Getty Images
Það geta ekki allir verið vinir. Football365 setti saman lista yfir tíu mestu leikmannaerjur í ensku úrvalsdeildinni.

10) Jamie Carragher gegn Lucas Neill
Carragher fótbrotnaði illa í leik Liverpool gegn Blackburn 2003 þegar Lucas Neill átti skelfilega tæklingu. Carragher hafði horn í síðu Neill eftir þetta og var haldið frá því að ráðast á hann þegar leiðir þeirra láu óvænt saman í verslunarmiðstöð í Manchester. Carragher segir frá þessu í ævisögu sinni.

9) Nemanja Vidic gegn Fernando Torres
Erjur sem einkenndust af virðingu í garð hvors annars. En þegar Manchester United og Liverpool áttust við milli 2007 og 2010 var barátta milli þeirra tveggja oftar en ekki í sviðsljósinu. Vidic er einn besti miðvörður sem hefur klæðst treyju United en Torres kunni þá list að fara illa með hann.

8) Roy Keane gegn Alan Shearer
Keane og Shearer var aldrei vel til vina á fótboltavellinum og oft á tíðum skapaðist mikill hiti milli þeirra. Eftirminnilegt er þegar Keane kastaði boltanum í Shearer í 4-3 sigri Newcastle gegn Manchester United.

7) John Terry gegn Wayne Bridge
Bridge neitaði að taka í höndina á Terry fyrir leik Manchester City gegn Chelsea í febrúar 2010. Ástæðan er sú að mánuði áður hafði komið upp á yfirborðið að Terry hafði haldið við fyrrum kærustu Bridge. Það tók tíma fyrir sárin að gróa og fyrirliðaband enska landsliðsins var tekið af Terry og Bridge tilkynnti að hann væri hættur að gefa kost á sér í landsliðið.

6) Jamie Carragher gegn El Hadji Diouf
El Hadji Diouf kom til Liverpool 2002 og varð þá samherji Jamie Carragher. Það kom síðar upp á yfirborðið að þeir þoldu ekki hvorn annan. Reglulega drulla þeir yfir hvorn annan í viðtölum. Carragher hefur sagt að Diouf sé versti samherji sinn á ferlinum og Diouf margoft sagt að Carragher hafi verið gagnslaus varnarmaður.

5) Roy Keane gegn Alf-Inge Haaland
Keane meiddist við að brjóta á Haaland í leik Manchester United gegn Leeds 1997. Þegar Keane lá í jörðinni meiddur eftir tæklinguna stóð Haaland yfir honum og sakaði hann um leikaraskap. Þessu gleymdi Keane ekki og hefndi sín 2001 þegar Haaland var kominn í Manchester City. Keane setti takkana í hné Norðmannsins og hraunaði svo yfir hann meðan hann lá í jörðinni. Ásetningsbrot sem gerði út um feril Haaland.

4) Graeme Le Saux gegn Robbie Fowler
Kjaftasögur voru um að Le Saux væri samkynhneigður og fékk hann oft að heyra það frá stuðningsmönnum andstæðingana. En Robbie Fowler tók hommafóbíuna inn á völlinn þegar Liverpool heimsótti Chelsea 1999. Eftir að Fowler hafði brotið á Le Saux og sá síðarnefndi bjó sig undir að taka aukaspyrnuna þá benti Fowler á afturendann á sér og sagði 'Komdu, gefðu mér það í rassinn' - Le Saux hefndi sín með olnbogaskoti síðar í leiknum og báðir fengu bann og sekt.

3) Peter Schmeichel gegn Ian Wright
Wright gjörsamlega hataði danska markvörðinn á sínum tíma. Honum gekk bölvanlega gegn honum og náði aðeins einu sinni að skora mark í viðureignum þeirra. Schmeichel var sakaður um kynþáttaníð í garð Wright í leik 1996 en það mál var látið niður falla. Næst þegar þeir mættust varði Schmeichel eins og berserkur frá Wright sem endaði með því að taka tveggja fóta tæklingu á markvörðinn. Hann fékk ekki einu sinni gult spjald!

2) Patrice Evra gegn Luis Suarez
Stuðningsmenn Liverpool og Manchester United urðu sjálfskipaðir sérfræðingar í varalestri þegar Suarez var sakaður um kynþáttaníð í garð Evra. Úrúgvæski framherjinn fékk átta leikja bann og samherjar hans mættu í Suarez bolum í upphitun í leik gegn Wigan til að sýna honum stuðning. Eitthvað sem Liverpool átti síðar eftir að biðjast afsökunar á. Suarez hefur sagst aldrei ætla að tala við Evra aftur og neitaði að taka í hönd hans fyrir leik 2012.

1) Roy Keane gegn Patrick Vieira
Valið í fyrsta sæti er augljóst. Keppni þessara tveggja hefur haft mikil áhrif á ímynd enska boltans. Arsenal og Manchester United voru tvö bestu lið landsins og höfðu öfluga fyrirliða sem voru með óbilandi keppnisskap. Það var alltaf stál í stál þegar Keane og Vieira mættust, menn sem gáfu ekki þumlung eftir og þoldu ekki að tapa.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner