Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   mið 09. nóvember 2022 15:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Eins og ef Eiður Smári hefði verið skilinn eftir heima á EM 2016
Marki fagnað með bandaríska landsliðinu.
Marki fagnað með bandaríska landsliðinu.
Mynd: Getty Images
Landon Donovan.
Landon Donovan.
Mynd: Getty Images
Úr leiknum sem Aron spilaði á HM 2014.
Úr leiknum sem Aron spilaði á HM 2014.
Mynd: Getty Images
Aron Jóhannsson var gestur í fyrsta þættinum af HM hringborðinu í gær. Aron varð fyrsti Íslendingurinn til að spila á HM þegar hann fór með Bandaríkjunum til Brasilíu árið 2014.

Í þættinum ræddi Aron um þá umdeildu ákvörðun sína að velja bandaríska landsliðið fram yfir það íslenska árið 2013. Aron spilaði í kjölfarið með Bandaríkjunum á HM ári síðar.

„Ég er búinn að tala um þetta rosalega mikið. Þetta var einhver tilfinning sem ég hafði, þetta var eitthvað sem mig langaði að gera. Ég ákvað að kýla á það. Ég hef aldrei verið hræddur að fara mínar eigin leiðir og gera hlutina eins og ég vil gera þá. Það var eitthvað sem togaði í mig," sagði Aron, sem fæddist í Bandaríkjunum en ólst upp í Grafarvogi.

„Þetta var allt öðruvísi og það var spennandi. Ég ákvað því að kýla á þetta."

Það voru margir aðilar sem höfðu skoðun á þessari ákvörðun og voru ritaðir pistlar hér og þar um þetta mál. Það truflaði Aron ekki neitt.

„Það truflaði mig ekki neitt, en ég man að það fór í taugarnar á fjölskyldunni og nánum ættingjum. Eins og ég sagt áður þá var ég ungur og vitlaus - ég skipti mér ekki af þessu. Mér hefði ekki getað verið meira sama hvað fólk út í bæ var að segja."

Aron ræddi einnig um það hvernig var að koma inn í bandaríska hópinn á þessum tíma. Þýska goðsögnin Jurgen Klinsmann var þjálfari liðsins og hann gerði mikið til að fá Aron í liðið.

Æfingabúðirnar fyrir HM
Í aðdraganda HM var valinn 35 manna úrtakshópur. Aron var þar á meðal og fór hann í æfingabúðir fyrir mótið. Þar fengu leikmenn að vita hvort þeir væru að fara með í flugvélinni til Brasilíu eða ekki. Það voru stórar fréttir af hópnum í aðdragandanum.

„Við fórum í æfingabúðir... það voru 23 í lokahópnum. Hægt og rólega voru menn sendir heim. Stundum kom maður eftir æfingu og þá var einn með tárin í augunum. Þá var Jurgen búinn að tilkynna þeim aðila að hann væri ekki að fara," sagði Aron.

„Svo eru fimm, sex leikmenn sendir heim undir lokin og þá var þetta stressandi. Ég var að spila í AZ Alkmaar í Hollandi og ég var ekki 100 prósent á því að ég væri að fara. Mér fannst það líklegt því ég var að standa mig vel. Svo kemur æfingin og þá er þetta frekar skrýtið, sérstaklega þar sem stærsta stjarna Bandaríkjamanna - Landon Donovan - var ekki valinn."

Donovan var á þessum tíma 32 ára og á niðurleið á sínum ferli. Þetta voru stór tíðindi en Klinsmann taldi það best að skilja hann eftir heima.

„Hann var sendur heim. Þetta var eins og ef Eiður Smári hefði verið skilinn eftir á EM 2016. Það reiknaði enginn með þessu, en Jurgen leit á það þannig að hann væri ekki að fara að spila honum og það væri meira vesen að hafa hann á bekknum og þurfa að svara fyrir það að hann væri ekki að koma inn á og svona. Það voru þrír, fjórir grátandi inn í klefa og hinir vilja ekki fagna út af því. Tveimur dögum eftir það voru menn búnir að jafna sig á þessu og bara menn eftir sem voru að fara til Brasilíu. Það var geggjað."

Aron kom inn á í fyrsta leik gegn Gana og spilaði þar 70 mínútur í 2-1 sigri. Hann spilaði ekki meira á mótinu en hann var að glíma við meiðsli og var ekki alveg 100 prósent. Hann talar meira um mótið og reynsluna í spilaranum hér fyrir neðan.

HM hringborðið er í boði NETGÍRÓ
Jólareikningur Netgíró er kominn í loftið. Allt sem þú verslar með Netgíró í nóvember og desember geturu borgað í febrúar. Þú getur kynnt þér málið nánar á Netgíró.is.
HM hringborðið - Fyrsti Íslendingurinn sem komst á stærsta sviðið
Athugasemdir
banner