West Ham United hefur gefið þýska sóknarmanninum Niclas Füllkrug grænt ljós á að yfirgefa félagið í janúarglugganum en þetta herma heimildir Sky í Þýskalandi.
Þessi 32 ára gamli framherji kom til West Ham frá Borussia Dortmund á síðasta ári en kaupverðið var í kringum 27 milljónir punda.
Á þessum tíma voru félagaskipti Füllkrug heldur óvænt, en hann var fastamaður hjá bæði Borussia Dortmund og þýska landsliðinu, og í raun á hátindi ferilsins. Félagaskipti hans til West Ham hafa hins vegar engan veginn gengið upp.
Hann skoraði aðeins 3 deildarmörk á fyrsta tímabili sínu í Lundúnum og þá verið mikið frá vegna meiðsla á þessari leiktíð.
Sky segir West Ham nú hafa heimilað að selja framherjann berist ásættanlegt tilboð. Augsburg og Wolfsburg eru sögð áhugasöm, en Wolfsburg talinn líklegri áfangastaður þar sem kappinn er að byggja hús aðeins 90 kílómetrum frá borginni.
Füllkrug vill komast frá West Ham í janúar. Hann stefnir á að fara á HM með þýska landsliðinu á næsta ári, en er ekki í hópnum í þessum landsleikjaglugga vegna vöðvameiðsla.
Athugasemdir



