„Ég hefði ekki viljað sjá Lúkas Loga eða Sigurð Egil byrja þenna leik, ég var að vonast eftir því að fá aðeins hægara Valslið heldur en þeir gátu stillt upp,“ sagði Davíð Smári Lamude, nýráðinn þjálfari Njarðvíkur, aðspurður um frækinn bikarsigur Vestra á Val í úrslitaleik Mjólkurbikarsins í sumar í útvarpsþætti Fótbolta.net um helgina.
Davíð var gestur þættinum og ræddi hann umræddan úrslitaleik Vals og Vestra. Hann telur að liðsuppstilling Vals í leiknum hafi hentað gamla liði sínu og var sigurviss fyrir leikinn.
„Liðsuppstilling Valsara hentaði okkur að einhverju leyti vel í þessum leik. Ég skal alveg viðurkenna það að ég vonaðist eftir þessari liðsuppstillingu og hún varð að veruleika. Ég tek ekkert af Túfa með það. Hann var búinn að gera gríðarlega góða hluti með Val.“
„Mér fannst liðið virkilega gott í sumar og þurfa lítið til að þeir gætu tekið næsta skref. Ég er að einhverju leyti hissa að þeir skyldu kúvenda öllu saman, en það eru mögulega önnur vandamál sem við vitum ekki af og maður verður að bera virðingu fyrir ákvörðunum sem voru teknar.“
Vissi að Vestri myndi vinna
„Þetta er klárlega stund sem maður bíður eftir sem þjálfari og svona stundir koma sjaldan. Þetta var 'out of body' upplifun, að því leyti að ég vissi að ég myndi vinna þennan leik. Það sem meira var að mér fannst leikmennirnir og stuðningsmenn vita það.“
„Það er einhver besta tilfinning sem þú getur fengið sem þjálfari. Við vorum komnir alla þessa leið og höfðum engu að tapa, á meðan Valur hafði öllu að tapa. Ég held að það hefur haft gríðarleg áhrif á leikinn og aðdraganda leiksins,“ sagði Davíð að lokum.





