Gylfi Þór Sigurðsson hefur ekki verið í landsliðshóp Íslands í heilt ár. Hann spilaði síðast landsleik fyrir ári síðan, í eftirminnilegu jafntefli gegn Wales. Frá því að Arnar Gunnlaugsson tók við landsliðinu hefur Gylfi ekki verið valinn í hópinn.
Í útvarpsþætti Fótbolta.net á laugardaginn var mikið rætt um Gylfa og hvort að hann væri mögulega búinn að leika sinn síðasta landsleik.
„Gylfi er einn af bestu leikmönnum sem við höfum átt og er eitt stærsta nafn sem við höfum átt. En ég spyr mig, hvernig ætlaru að hafa pláss fyrir leikmenn að stækka þegar Gylfi er í klefanum,“ sagði Davíð Smári Lamude, nýráðinn þjálfari Njarðvíkur, sem var sérstakur gestur þáttarins.
Elvar Geir kastaði því næst upp spurningunni: Er Gylfi búinn að spila sinn síðasta landsleik?
Tómas Þór svaraði spurningunni játandi og Elvar Geir svaraði um hæl: „Ef það er ekki verið að kalla hann inn núna, hvenær þá? Næst er umspilið í mars og þá er hann bara búinn að vera í Reykjavíkurmótinu, svo er vonandi bara HM næsta sumar ef við látum okkur dreyma.“
Davíð Smári tók því næst til máls: „Ég ætla að leyfa Gylfa að trúa því að hann muni spila aftur fyrir landsliðið. Mér finnst eins og það sé ljósið á enda ganganna fyrir Gylfa. Hann er einhvern veginn að elta þetta og æfir gríðarlega vel og ég held að hann langi þetta gríðarlega.“
„Mér finnst að Gylfi eigi að fá einn leik og fá alvöru klapp úr stúkunni. Það er ekki mitt að dæma um, en mér finnst hann klárlega hafa unnið fyrir því.“
„Ef það er einhver sem á skilið kveðjustund þá er það hann. En það er erfitt að koma í þetta núna. En þetta er fljótt að breytast, eins og með Jóhann Berg í síðasta glugga og atvinnumennskuna hans í golfi,“ svaraði Elvar.
„Svo spyr maður sig, fyrir hvern á Gylfi að koma þarna inn, það eru allir í miklu betri deildum og allir að eiga góð tímabil. Það er erfitt að koma honum þarna inn. Líka þetta pláss sem hann tekur í klefanum, mér er ekkert illa við Gylfa við að segja þetta en hann er svo stór leikmaður, ekki á íslenskan mælikvarða heldur í heimsfótbolta,“ sagði Davíð Smári að lokum.


